Mikið um andarnefjur

Deila:

Óvenjumikið hefur verið af andarnefjum inni á fjörðum fyrir norðan og austan í sumar. Ekki er vitað með vissu hvaða erindi þessi smáhvalur á hingað upp að landinu, en ferðamenn þiggja þessa ókeypis hvalaskoðun í fjöruborðinu.

Öruggasta leiðin til að sjá hvali er auðvitað að fara í siglingu með hvalaskoðunarbáti. En undanfarið hefur ekki þurft að sigla til að sjá hval, því hópur andarnefja hefur haldið sig á Pollinum á Akureyri síðustu daga. Og andarnefjur hafa sést víðar inni á fjörðum í sumar. Meðal annars við Þórshöfn og á Borgarfirði eystra segir á fréttavef ruv.is.

Óljóst af hverju andarnefjurnar koma hingað

Engin viðhlítandi skýring hefur fengist á því af hverju þessir smáhvalir koma hingað yfir sumarið. Að minnsta kosti eru þeir ekki í ætisleit inni á fjörðum. „Nei, andarnefjur eru djúpsjávarhvalir. Þær eru af ætt svínhvala og það eru mikil djúpsjávar- og úthafsdýr. Og aðalfæða þeirra er smokkfiskur,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson, fiskifræðingur og lektor við Sjávarútvegsfræðideild HA. Þá sæki flestar hvalategundir suður á bóginn þegar haustar og kannski flækist þær hér inn á firði á leiðinni þangað.

Voru vikum saman á Pollinum sumarið 2008

En andarnefjur geta stoppað lengi. Sumarið 2008 var hópur andarnefja á Pollinum við Akureyri í margar vikur og varð fastur liður í ferðaþjónustunni það sumarið. Og það gekk svo langt að sett voru upplýsingaskilti við Pollinn, um andarnefjur. En það dugði skammt því þær voru farnar nokkrum dögum síðar.

Margar eldri heimildir til um andarnefjur

Þær hafa sést af og til síðan, en alltaf stoppað stutt. En Hreiðar segir margar eldri heimildir til um andarnefjur á Eyjafirði. „Þetta virðist vera, svona til lengri tíma litið, nokkuð algengt að andarnefjur komi hingað inn. Hvort sem þær stoppa nú lengi eða ekki.“

Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

 

Deila: