Nýr Börkur verður afhentur í árslok 2020

Deila:

Stjórn Síldarvinnslunnar hefur samþykkt að ganga til samninga við danska skipasmíðafyrirtækið Karstensens Skibsværft AS um smíði á nýju uppsjávarskipi. Mun skipið fá nafnið Börkur og verður það væntanlega afhent Síldarvinnslunni í lok árs 2020. Þessi nýi Börkur mun leysa af hólmi núverandi Börk sem verið hefur í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 2014, en nýsmíðin verður fimmta skipið í eigu fyrirtækisins sem ber þetta nafn. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Karstensens er með höfuðstöðvar sínar í Skagen í Danmörku,  en auk þess rekur fyrirtækið skipasmíðastöð í Gdynia í Póllandi. Gert er ráð fyrir að skrokkur skipsins verði smíðaður í Póllandi.  Skipið verði síðan dregið til Danmerkur þar sem það verður fullklárað.  Karstensen hefur verið leiðandi í smíði uppsjávarskipa undanfarin ár en fyrirtækið hefur verið að afhenda 6-7 skip ári að undanförnu.

Hinn nýi Börkur verður smíðaður fyrir flotvörpu- og hringnótaveiðar. Lengd skipsins verður 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærðin er 4.100 brúttótonn. Aðalvélar verða tvær 3200 kw hvor vél og rafall skipsins verður 3500 kw.   Þá verður í skipinu 820 kw hjálparvél.  Tvö kerfi, hvort um sig 1.500 kw, verða í skipinu til að kæla aflann, en samtals verða kælitankarnir 13 talsins og eru þeir alls 3.420 rúmmetrar. Vistarverur í skipinu verða fyrir 16.

Við smíði  skipsins  verður vandað til allra þátta og hugað að vinnuaðstöðu og aðbúnaði sjómanna.

Sá Börkur sem hverfa mun á braut með tilkomu nýja skipsins hefur reynst Síldarvinnslunni afar vel. Skipið var smíðað í Tyrklandi árið 2012. Það er 80, 30 metrar að lengd, 17 metrar að breidd og 3.588 brúttótonn að stærð.

„Þetta er mjög spennandi verkefni og fellur vel að framtíðarsýn okkar hvað snertir veiðar og vinnslu uppsjávartegunda. Það er ljóst að miklar sveiflur í kvótum einkenna veiði úr okkar helstu fiskistofnum. Sem dæmi vitum við ekki núna hvort Síldarvinnslan er að fara að veiða 70 þúsund tonn eða 7 þúsund tonn á komandi loðnuvertíð. Sókn eftir kolmunna er löng og hefur verið að færast í aukana að veiða úr þeim stofni á alþjóðlegum hafsvæðum. Þá skiptir máli að hafa stór og öflug skip. Það er ekki langt síðan núverandi Börkur var keyptur og hann hefur reynst okkur  vel, en árið 2020 verður hann orðinn átta ára gamall. Með nýjum Berki fáum við skip með öfluga kæligetu og allur aðbúnaður um borð verður mjög góður. Nýja skipið verður sparneytnara og burðarmeira, núverandi Börkur er með 2500 rúmmetra lestar á meðan sá nýi verður með rúmlega 3.400 rúmmetra lestar.

Við höfum kynnt okkur vel þau uppsjávarskip sem smíðuð hafa verið að undanförnu og hafa skipin frá Karstensens reynst vel, enda er mikil reynsla þar innanbúðar hvað varðar smíði á uppsjávarskipum,“ segir Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar um smíði nýs Barkar

 

Deila: