Hvað er að frétta af uppboðum í Færeyjum?

Deila:

Annað slagið berast fréttir af tilraunum færeyskra stjórnvalda til að innheimta veiðigjald vegna fiskveiða, með uppboðum. Slíkt hefur verið reynt í öðrum löndum en ekki gefið góða raun, og frá því í öllum tilvikum fallið. Þrátt fyrir þetta telja einstaka aðilar hér á landi uppboð lausn allra mála. Það má ætla tálsýn. Mismunandi gjaldtaka getur raunar hæglega valdið ruglingi, þegar hvorki gjaldtakan né stjórn fiskveiða eru sett í samhengi. Því er rétt að geta nokkurra atriða sem taka þarf tillit til í þessu samhengi.

 

Greitt veiðigjald hærra á Íslandi

Til að byrja með er gott að líta á greitt veiðigjald í Færeyjum og á Íslandi á undanförnum árum. Þótt einstaka sinnum berist fréttir af háum greiðslum á uppboðum í Færeyjum, kemur glöggleg í ljós að heildargjaldið er hærra á Íslandi en í Færeyjum, eins og sjá má á samantektinni hér að neðan. Heildarmyndin er því töluvert öðruvísi þegar allt er tekið með í reikninginn. Sú mynd hlýtur enda að skipta mestu þegar spurt er; hversu mikið er greitt fyrir aðgang að auðlindinni. Taflan hér að neðan er unnin upp úr gögnum frá Hagstofu Færeyja, Hagstofu Íslands, fjárlögum beggja landa, Deloitte og Fiskistofu.

SFS veiðigjöld

 

 

Fáir njóta af uppboðum

„Færeysk stjórnvöld hafa gert tilraunir með uppboð á þremur deilistofnum og botnfiski í Barentshafi. Deilistofn er stofn sem flakkar á milli lögsaga og því hafa stjórnvöld í einu landi takmarkaðan umráðarétt yfir honum. Nefna má sem dæmi síld, kolmunna og makríl. Ekkert hefur enn verið boðið upp á heimamiðum sem Færeyingar hafa umráðarétt yfir. Það kemur ekki óvart enda hefur ástand þorskstofnsins verið lélegt og því lítið að bjóða upp. Ráðgjöf fyrir árið 2019 er upp á rúmlega 10 þúsund tonn af þorski í Færeyjum en 264 þúsund tonn á Íslandi fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.“

Svo segir í pistli sem birtur er á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur: „Stefið í uppboðum Færeyinga er ætíð hið sama, lítil hlutdeild er boðin upp og fá fyrirtæki hirða stærsta hluta heimildanna. Stundum eru fyrirtækin einungis tvö og jafnan er þar um að ræða stærstu sjávarútvegsfyrirtækin. Aukin samþjöppun er því augljós fylgifiskur uppboða og þau eru síst til þess fallin að styðja markmið íslenskrar fiskveiðistjórnunar um að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

 

Rekstrarlegar forsendur uppboðsverðs

Átta þúsund tonn af makríl voru boðin upp í Færeyjum í ágúst, samtals um 8% af heildar makrílkvóta sem gefin hefur verið út í Færeyjum. Tvö fyrirtæki fengu allar aflaheimildirnar og verðið sem fékkst var að jafnvirði á bilinu 80-97 íslenskra króna á kíló. Ljóst er að engar rekstrarlegar forsendur gætu staðið undir viðlíka gjaldi hér á landi. Opinber veiðigjaldsnefnd, skipuð af stjórnvöldum, reiknar beinan kostnað við að veiða fisktegund til að ákvarða veiðigjald fyrir hverja þeirra. Framlegð í makríl hefur verið á bilinu 15-22 krónur á kíló undanfarin tvö ár. Það þýðir að eftir standa fyrir fyrirtæki um 15-22 krónur til að greiða fyrir allan fastan kostnað, líkt og afskriftir og fjármagnsgjöld. Af þessu má ráða að íslensk fyrirtæki kæmu út í stórkostlegu tapi ef þau verð sem fengust á síðustu uppboðum í Færeyjum væru heimfærð á heildarafla í makríl á Íslandi, líkt og sumir hafa lagt til.

 

Jaðarverð umsvifamikilla fyrirtækja

Verð sem myndast á uppboðunum eru jaðarverð. Í jaðarverði felst að fyrirtæki sem þegar hafa aflaheimildir í tiltekinni tegund munu þegar verða fyrir kostnaði við að sækja þann afla. Sá afli sem unnt er að fá til viðbótar á uppboði leiðir því aðeins til aukinna tekna en óverulegs kostnaðar. Af þeim sökum geta hlutaðeigandi aðilar greitt hátt verð, svokölluð jaðarverð, fyrir aflaheimildir sem boðnar eru upp. Slík verð eru því ekki lýsandi. Í þessu samhengi er jafnframt rétt að rifja upp að eitt markmið uppboða á aflaheimildum í Færeyjum var að auka nýliðun í atvinnugreininni. Enginn nýr aðili hefur hins vegar tekið þátt í þeim uppboðum sem þegar hafa farið fram þar í landi, enda engin leið fyrir nýja aðila að keppa við áðurgreind jarðarverð.

 

Ólíkar markaðsaðstæður

Þá ber að hafa í huga að Færeyingar hafa aðgang að mun betur borgandi markaði en Íslendingar. Rússlandsmarkaður er opinn Færeyingum og þar fást allt að 30% hærri verð en á mörkuðum sem íslensk fyrirtæki skipta við. Makríllinn veiðist aukinheldur á öðrum tíma við Færeyjar og er hann þá verðmeiri. Það leiðir til þess að Færeyingar geta selt makríl í meira magni til betur borgandi markaða eins og þess japanska, þar sem miklu hærra verð fæst fyrir hann.

 

Íslenskur sjávarútvegur skilar hlutfallslega meiru

Álagning veiðigjalds hér á landi hófst árið 2004 og er gjaldtakan mun umfangsmeiri en í Færeyjum, en álagning veiðigjalds, og það á aðeins eina tegund, hófst þar árið 2011. Núna er greitt gjald af þremur tegundum í Færeyjum, en af öllum tegundum hér á landi. Þá hefur ekki síður veruleg áhrif að sjómenn taka að hluta til þátt í greiðslu veiðigjalds í Færeyjum, þar sem draga má gjaldið frá aflaverðmæti fyrir skipti. Á Íslandi ber útgerðin ein ábyrgð á greiðslu gjaldsins.

Við fyrrgreint verður svo að bæta að ekkert gjald er lagt á í Færeyjum vegna veiða úr fiskistofnum á heimamiðum. Við fiskveiðistjórn á heimamiðum hafa Íslendingar og Færeyingar farið ólíkar leiðir; Ísland hefur farið þá leið að stýra veiðum með aflamarkskerfi en Færeyingar hafa stýrt veiðum með sóknardagakerfi. Árangurinn af þessum kerfum er mjög ólíkur og hefur það íslenska reynst miklu farsælla. Á Íslandi er ástand þorskstofnsins gott, hrygningarstofninn er á uppleið og hefur ekki verið stærri í hálfa öld. Í Færeyjum er staðan hins vegar sú að þar er þorskstofninn í mikilli lægð og hefur stærð hrygningarstofnsins þar verið við varúðarmörk síðan árið 2005. Þorskveiðar á heimamiðum Færeyinga eru því ekki sjálfbærar.

 

Önnur gjaldtaka hér á landi

Mikilvægt er að hafa í huga að hér á landi er einnig óbein gjaldtaka í sjávarútvegi þar sem íslenska ríkið hefur til ráðstöfunar 5,3% af öllum úthlutuðum aflaheimildum. Aðeins fjögur fyrirtæki í sjávarútvegi hafa meiri aflaheimildir til ráðstöfunar fyrir fiskveiðiárið 18/19 en íslenska ríkið. Áætlað aflaverðmæti þessara 32 þúsunda tonna eru um 6-8 milljarðar króna. Fiskistofu er svo falið að bjóða upp þessi 5,3%. Tegundir eru þá seldar í skiptum fyrir þorsk, sem síðan er úthlutað m.a. til strandveiða og í byggðakvóta. Í skerðingu aflaheimilda um 5,3% ár hvert felst því óbein gjaldtaka á handhafa heimildanna.

Þá er mikilvægt að halda til haga að bein gjaldtaka eins og veiðigjald er ekki eini mælikvarðinn á hvað fyrirtæki greiða í sameiginlega sjóði. Fyrir utan að stuðla að atvinnu og hagvexti í hagkerfinu má nefna fjölda annarra gjalda, þar með talið kolefnisgjald sem ekki er greitt í Færeyjum, aflagjald sem er mun lægra í Færeyjum, tryggingagjald sem er hærra á Íslandi og svona mætti áfram telja.

 

Það er mikilvægt í alþjóðlegri samkeppni að þekkja til og viðurkenna að aðstæður í sjávarútvegi á Íslandi geta ekki verið of íþyngjandi, því sjávarútvegur á Íslandi á í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði. Að öðrum kosti mun samkeppnishæfni sjávarútvegsins gefa eftir og á því mun engin hagnast.“
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: