Á veiðar á ný eftir umfangsmikla slipptöku

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK hélt til veiða í gær eftir umfangsmikla slipptöku sem fram fór í Reykjavík. Togarinn kom úr síðustu veiðiferð sumarsins 7. ágúst sl. og fór í slipp tveimur dögum síðar þannig að skipið hefur verið frá veiðum í tæpar sjö vikur.

,,Það er óhætt að segja að skipið hafi verið tekið rækilega í gegn eins og jafnan er gert í stórum klössunum eins og þessari. Það voru teknar upp aðalvél og ljósavélar, skipið var öxuldregið, skipt var um fóðringar í stýri og timbur á togdekki. Tækifærið var notað til að setja nýtt brunaviðvörunarkerfi í skipið, það var málað upp á nýtt auk þess sem unnið var að mörgum smærri verkefnum,” segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri, en hann segist fagna því að komast á sjóinn að nýju eftir langt sumarfrí.

,,Það var góð veiði í allt sumar og félagar mínir á hinum ísfisktogurum félagsins láta vel af aflabrögðunum um þessar mundir. Stefnan verður sett á Vestfjarðamið ef að líkum lætur. Við höfum sótt meira á þau mið á þessu ári en áður en helsta ástæðan er sú að við höfum fengið góða karfaveiði í Víkurálnum og ufsinn heldur sig gjarnan á Halasvæðinu,” segir Heimir Guðbjörnsson í samtali á heimasíðu HB Granda.

 

Deila: