Fæ gríðarlegan meðbyr
Tálknfirðingurinn og sjómaðurinn Heiðveig María Einarsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til þess að gegna formennsku í Sjómannafélagi Íslands og fer fyrir lista til framboðs næstu stjórnar. Fyrsta konan sem lætur slag standa og vill stýra hefðbundnu karlafélagi sem sjómannafélag er. Hvergi á landinu eru hlutur sjávarútvegs hærri í atvinnulífinu en einmitt á Vestfjörðum. Fréttamiðillinn bb.is ræddi við Heiðveigu og fá nánari fréttir af framboði hennar og fer viðtalið hér á eftir:
Auðvitað var hún á sjó og út af Vestfjörðum þegar viðtalið fór fram. Heiðveig starfar af og til sem kokkur á togaranum Engey RE og hún gaf sér smástund milli verkefna um borð til þess að svara spurningum.
Heiðveig María Einarsdóttir fæddist 1979 á Patreksfirði og bjó með foreldrum sínum á Tálknafirði, þeim Einari Jóhannssyni og Þórdísi Ólafsdóttur. Þaðan flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Þar býr Heiðveig og er móðir þriggja barna.
Fyrst fór hún á sjóinn um aldamótin, en fór svo í nám á Bifröst í viðskiptalögfræði og lagði síðar stund á meistaranám í verkefnastjórnun og sjálfbærum orkuvísindum með áherslu á viðskipti og lög. Meðfram sjómannsstörfum vinnur Heiðveig sem viðskiptalögfræðingur.
Í kringum sjómannaverkfallið síðasta 2016/17 fór að bera á Heiðveigu, þar sem hún brýndi sjómannaforystuna til dáða og nú hefur hún stigið skrefinu lengra og boðið sig fram gegn þeirri sömu sjómannaforystu. Núverandi formaður Sjómannafélags Íslands er Jónas Garðarsson.
Reglurnar eru þær að framboði skuli skila inn eigi síðar en 19. nóvember og þarf 100 meðmælendur til þess að framboðið teljist gilt. Það er ótrúlega hár þröskuldur þegar haft er í huga að félagsmenn eru líklega um 500. Heiðveig segist ekki kvíða því að ná tilskildum fjölda. Hún kveðst fá gríðarlegan meðbyr og ótrúlega hvetjandi skilaboð frá sjómönnum úr öllum áttum, meðal annars frá stjórnarmönnum í öðrum sjómannafélögum. Heiðveig María kvartar undan því að fá mjög takmarkaðar upplýsingar.“Ég fæ bara þögn frá félaginu þegar beðið er um upplýsingar.“ Framkvæmdin á kosningunni sjálfri er að mati Heiðveigar harla óvilhöll þar sem „ kosningin stendur yfir frá 25. nóv. til 10. jan 2019 og fer aðeins fram á skrifstofu félagsins með pappírssnifsi og penna í umsjón núverandi stjórnar, sem verður líklega mótframboðið mitt. Þetta er algerlega galið.“
Framboð Heiðveigar er ekki aðeins til formanns heldur verður að bjóða fram í alla stjórnina, 7 aðalmenn og 3 til vara, samtals 10 manna framboð. Þetta kemur fram í lögum félagsins og lítið er um frekari upplýsingar, segir Heiðveig María.
Vill eitt félag
Þegar spurt er um áherslur og stefnu, stendur ekki á svörum. Heiðveig rekur hvert atriðið á fætur öðru og það er greinilegt þörf á mikilli breytingu frá því sem nú er.
Fyrst nefnir Heiðveig að auka þurfi lýðræðislega þátttöku félagsmanna. Félagsmenn hafa ekki átt greiða leið að ákvörðunarferlinu og þunglamalegt kerfið vinnur gegn áhrifum sjómanna. Heiðveig segir að hægt sé að auka upplýsingagjöf og taka upp rafræna þátttöku og „ færa félagið inn í nútímann“. Þá bendir Heiðveig á að atvinnurekendum takist alltaf að færa samningaviðræður á sinn heimavöll og því sé forysta sjómanna alltaf að glíma við ofurefli í peningum og völdum. Atvinnurekendur komi líka alltaf vel undirbúnir með sérfræðinga sér til halds og trausts. Sjómenn þurfi að mæta betur undirbúnir.
Frumvarpið um veiðigjöld hefur þann galla, segir Heiðveig, að þar sé hvati til þess að hafa fiskverðið sem lægst þar sem ekkert veiðigjald verður reiknað út frá vinnsluhlutanum, og náin tengsl fiskkaupenda og fiskseljenda gerir það að verkum að búast megi við því að aflaverðmæti til uppgjörs muni lækka verði frumvarpið samþykkt og þar með fylgir lækkandi aflahlutur sjómanna. Þá séu vísbendingar um það að þessi þróun sé þegar í gangi – á kostnað sjómanna.
Verðmyndun á fiski er sjómönnum mikilvæg, segir Heiðveig María Einarsdóttir og verðið nú til skipta er of lágt. Sjómannafélag Íslands og Sjómannafélag Grindavíkur sem hafa líklega fleiri félagsmenn en Sjómannasamband Íslands hafa enga fulltrúa við það borð sem ákveður lágmarksverðið.
Að lokum segir Heiðveig að hún vilji stefna að því að fá skipstjóra og vélstjóra með í eitt félag í sameinað félag með undirmönnum. Þar gæti skipstjórar og vélstjórar verið í sérdeilda innan þess félags.
Þegar hér var komið við sögu var tíminn þrotinn hjá kokkinum á Engey RE og botninn því sleginn í viðtalið við þessa óvenju kjarkmiklu konu – vestfirsku, auðvitað.