Japanskir loðnukaupendur áhyggjufullir
Þessa dagana dvelja fulltrúar fjögurra japanskra fyrirtækja í Neskaupstað og bíða frétta af loðnuleit. Þeir segja að það sé grafalvarlegt mál ef engin íslensk loðna kemur inn á markaðinn í ár en japanskir neytendur þekkja loðnuna frá Íslandi sem gæðavöru. Í fyrra keyptu japönsk fyrirtæki 20.000 tonn af loðnu frá Íslandi auk þess sem Japanir eru helstu kaupendur loðnuhrogna. Í Japan fer loðnan öll til manneldis og fyrir hana fást góð verð, en Síldarvinnslan hefur verið stærsti íslenski framleiðandinn á loðnu inná Japansmarkað.
Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við þrjá Japani sem nú dvelja í Neskaupstað til þess að fræðast um þeirra sýn á þá alvarlegu stöðu sem nú blasir við hvað loðnuna varðar. Enn er leitað að loðnu en ekki hefur mælst nægjanlegt magn til að unnt sé að ákveða kvóta og hefja veiðar. Japanirnir sem rætt var við eru Takaho Kusayanagi og Hiroaki Takahasi sem báðir starfa hjá fyrirtækinu K&T Inc. sem sérhæfir sig í að kaupa fisk til Japan og selja hann síðan fyrirtækjum sem vinna hann fyrir neytendamarkað. Þriðji Japaninn sem rætt var við er Masayuki Okada en hann kemur frá fyrirtækinu Okada Suisan sem meðal annars sérhæfir sig í að vinna fisk fyrir neytendamarkað. Okada Suisan rekur vinnslustöðvar í Japan, Kína, Indónesíu og Tælandi og eru starfsmenn þeirra samtals rúmlega 1.100. Allir þrír viðmælendur heimsíðunnar eru gjörkunnugir á Íslandi. Takahashi hefur dvalið tímabundið á Íslandi á hverju ári í 34 ár, Kusayanagi í 28 ár og Okada í 26 ár. K&T hefur keypt loðnu frá Íslandi í rúmlega aldarfjórðung og Okada Suisan í um fjörutíu ár. Auk loðnunnar hafa fyrirtækin keypt umtalsvert magn af makríl frá íslenskum fyrirtækjum á síðari árum.
Takahasi segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hann komi til Íslands á vertíðartíma og útlit sé fyrir að það verði engin loðnuvertíð. „Hver vertíð hefur sína sérstöðu. Stundum hafa vertíðir byrjað snemma og stundum seint. Stundum hefur gengið vel að finna loðnuna en stundum hefur það verið erfiðleikum bundið. Stundum hafa veiðarnar verið miklar og stundum höfum við fengið litlar vertíðir. En ég viðurkenni að útlitið hefur nánast aldrei verið jafn dökkt og nú. Það er grafalvarlegt mál ef við fáum ekki íslenska loðnu inn á japanskan neytendamarkað því þá er hættan sú að neytendur beini sjónum sínum að öðrum vörum og erfitt verði að vinna markaðinn til baka“.
Fram kom hjá viðmælendunum þremur að ef engin loðna fengist á Íslandi myndu japanskir kaupendur beina sjónum sínum að Rússlandi og Kanada. Hugsanlegt væri að fá loðnu þaðan en það væri hins vegar staðreynd að íslenska loðnan væri best og hefði unnið sér sérstakan sess hjá japönskum neytendum. Aftur á móti væri það staðreynd að neytendur væru oft fljótir að breyta neysluvenjum og það væri alvarlegt ef vara dytti algjörlega út af markaði.
Kusayanagi segir að fulltrúar kaupenda bíði loðnufrétta hér á landi og séu nákvæmlega jafn spenntir og áhyggjufullir og forsvarsmenn íslenskra loðnufyrirtækja. „Við erum hér og bíðum og gerum okkur grein fyrir að loðnuleysið hefur ekki einungis neikvæð áhrif á fyrirtækin sem við störfum fyrir heldur á allt íslenska samfélagið og þá einkum á þau bæjarfélög þar sem loðna er unnin og þaðan sem loðnuskip eru gerð út. Þetta er vond staða fyrir alla sem nálægt loðnuveiðum og loðnuvinnslu koma. Enn er þó von og við bíðum góðra frétta.“
Okada kom til Íslands 18. febrúar sl. og reiknar með að öllu óbreyttu að dvelja á landinu í vikutíma eða svo. Hann segir að fyrirtæki sitt vinni gjarnan úr um 8.000 tonnum af loðnu sem veidd er við Ísland á ári hverju en mest hafi það unnið úr 16.000 tonnum. Loðnan er þurrkuð, steikt og unnin með ýmsum hætti fyrir neytendamarkaðinn. „Íslensk loðna er geysivinsæl í Japan og vinnsla hennar er drjúgur hluti starfsemi Okada Suisan. Ef við fáum ekki loðnu frá Íslandi þá höfum við áhuga á að fá annan íslenskan fisk til vinnslu, til dæmis makríl. Okkur hefur reynst heldur erfitt að fá fólk til starfa í fiskvinnslu í Japan og það er mjög slæmt ef við lendum í hráefnaskorti því þá fer fólkið okkar í önnur störf. Það er mikil eftirspurn eftir vinnuafli í Japan um þessar mundir ekki síst vegna Olympíuleikanna sem haldnir verða í Tokyo sumarið 2020. Uppbygging vegna leikanna er afar umfangsmikil. Nú er útlit fyrir loðnuveiðar hér ekki bjart en við bíðum og vonum. Menn verða alltaf að halda í vonina. Ef staðreyndin er sú að loðnustofninn sé í lægð þá verður að bregðast skynsamlega við því. Við megum ekki bara hugsa um vertíðina núna, við verðum að hugsa til langrar framtíðar og mestu máli skiptir þá að stofninn nái sér á strik á ný. Við verðum einhvernveginn að glíma við loðnuleysi í eitt ár þó það hafi í för með sér erfiða stöðu.“