Úrvalshráefni til vinnslu

Deila:

Áfram berst kolmunni til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Til verksmiðanna hafa nú borist tæplega 34.000 tonn frá því að veiðar vestur af Írlandi hófust snemma í febrúarmánuði. Verksmiðjustjórarnir, Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Gunnar Sverrisson á Seyðisfirði, segja að kolmunninn sé úrvalshráefni til vinnslu. Togtími hjá skipunum sé stuttur og aflinn vel kældur þannig að áhersla á gæði hráefnisins sé í hávegum höfð.

Margrét EA kom til Seyðisfjarðar á mánudga  með 2.000 tonn og á þriðjudag landaði Hákon EA rúmlega 1.600 tonnum í fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað auk þess að landa 370 tonnum af frystum fiski. Bjarni Ólafsson AK kom síðan til Neskaupstaðar í fyrrinótt með 1.450 tonn.

Vegna veðurs er ljóst að hlé verður á vinnslu í verksmiðjunum þegar lokið verður við að vinna þennan afla, en kolmunnaskipin liggja nú í vari við Írland.

Ljósmynd Helgi Freyr Ólason

 

Deila: