Heimilt verði að segja sig frá strandveiðum

Deila:

Atvinnuveganefnd Alþingis leggur til breytingu á frumvarpi sjávarútvegsráðherra um strandveiðar. Lagt er til að bætt verði við nýrri málsgrein í 6. gr. a laganna sem heimilar fiskiskipum sem hafa fengið leyfi til að stunda strandveiðar að óska þess að strandveiðileyfi verði fellt úr gildi og hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum.

Þessi heimild taki gildi mánuðinn eftir að niðurfelling leyfis á sér stað, þ.e. sé strandveiðileyfi fellt niður í júní verður umræddu fiskiskipi heimilt að hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum í júlí. Fiskiskip sem nýta þessa heimild geta þó ekki fengið leyfi aftur til að stunda strandveiðar á sama strandveiðitímabili. Lögð er til breyting á 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. a laganna í samræmi við framangreint. Með þessu telur nefndin að komið sé að verulegu leyti til móts við mörg þau sjónarmið sem komið hafa fram í umsögnum um málið.

Álit nefndarinnar má sjá hér: https://www.althingi.is/altext/149/s/1310.html

Deila: