Hert á svæðalokunum vegna smáfisks

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birtir drög að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð við Ísland til umsagnar. Samkvæmt reglugerðinni er lagt til að 16 veiðisvæðum verði lokað tímabundið til tveggja til þriggja ára.

Starfshópur um faglega endurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum skilaði skýrslu til ráðherra í september 2018. Í skýrslunni voru m.a. lagðar til breytingar á framkvæmd lokana veiðisvæða. Á undanförnum árum hefur skyndilokunum á djúpslóð fækkað, en fjölgað á grunnslóð. Með öðrum orðum þá hafa skyndilokanir færst af hefðbundnum veiðisvæðum togaraflotans inn á grunnslóðina, þar sem hluti línubátanna en þó sérstaklega handfærabátarnir stunda veiðar. Starfshópurinn lagði til að tilteknum svæðum, þar sem mest væri um skyndilokanir eða smáfisk, yrði lokað með reglugerð. Í þeim drögum sem hér eru kynnt er lagt til að 16 svæðum verði lokað tímabundið til tveggja til þriggja ára. Af þessum 16 svæðum eru 9 svæði ný og þar er lagt til að lokunin gildi hluta úr ári, en á 7 svæðum eru reglugerðir nú þegar í gildi og þar eru 5 svæði lokuð hluta úr ári en 2 svæði lokuð allt árið.

Framangreindar tillögur voru gerðar í samráði og samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Landsamband smábátaeigenda (LS), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Samtök smærri útgerða (SSÚ). Í hluta draganna er farið alfarið eftir tillögum heimamanna en hluti draganna byggist á sögu skyndilokana og öðrum gögnum þar sem engar tillögur frá heimamönnum bárust eða samstarfsvilji þeirra var lítill.

Samhliða er lagt til að viðmiðunarmörkum vegna lokana veiðisvæða verði breytt samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar. Viðmiðunarmörk fyrir þorsk, ýsu og ufsa verði 50% af fjölda, í stað 25% í þorski og 30% í ýsu og ufsa, en lengdarmörk verði óbreytt (55 cm í þorski og ufsa og 45 cm í ýsu).

Umsögnum um drögin skal skilað í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 16. apríl næstkomandi.

Sækja skjal –

 

Deila: