Enn eitt karlavígið kolfallið
Lengi hefur verið litið svo á að landanir úr uppsjávarskipum væru karlmannsverk, en breyting hefur orðið á því að undanförnu á Seyðisfirði. Guðlaug Vala Smáradóttir hefur reyndar starfað í kringum landanir á Seyðisfirði í ein fjögur ár, en þegar kolmunna var landað úr Bjarna Ólafssyni AK um síðustu helgi störfuðu þrjár stúlkur við þá löndun: Guðlaug Vala var löndunarstjóri, Dóra Sigfúsdóttir starfaði í löndunarhúsinu og Elísa Björt Einarsdóttir vann í lest skipsins. Því er unnt að segja að þetta karlavígi sem landanirnar hafa verið sé kolfallið. Gunnar Sverrisson, verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, segist ekki vita til þess að konur starfi annars staðar við landanir af þessu tagi , hvað þá að þrjár starfi við sömu löndunina.
Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Guðlaugar Völu og spurði hana hvort þessi breyting fæli ekki í sér skýr tímamót. „Jú, það má alveg segja það. Ég hef að vísu unnið í tengslum við landanir alllengi en það er gaman að fá fleiri stelpur í hópinn. Og það er alveg nýtt að stelpa vinni í lestinni við löndun. Nú hefur Elísa unnið í lest í þremur eða fjórum löndunum og kann afar vel við starfið. Hún gefur strákunum sko ekkert eftir. Ég veit ekki til þess að stelpur sinni störfum sem þessum annars staðar en ég fullyrði að þessi störf eru ekkert frekar strákastörf en stelpustörf. Ég vil bara hvetja stelpur til að sækjast eftir störfum við landanir, þær eiga ekki að hika við það. Það eru einungis hefðir sem koma í veg fyrir að stelpur vinni svona störf,“ segir Guðlaug Vala.
Á myndinni eru löndunarstelpurnar á Seyðisfirði. Talið frá vinstri: Dóra Sigfúsdóttir, Elísa Björt Einarsdóttir og Guðlaug Vala Smáradóttir. Ljósm. Gunnar Sverrisson