Aukin áhersla á heilsueflingu

Deila:

Á fyrri hluta ársins hefur Síldarvinnslan lagt aukna áherslu á heilsueflingu starfsmanna. „Við sáum aukningu í veikindafjarvistum á síðasta ári og höfum af því áhyggjur“, segir Hákon Ernuson, starfsmannastjóri. „Því tókum við ákvörðun um að skoða hvað við gætum gert til að hvetja starfsmenn til að huga betur að heilsunni, en það er staðreynd að venjur okkar hvað varðar næringu, hreyfingu, svefn o.fl. hafa afgerandi áhrif á heilsuna. Við fórum því í fræðsluátak þar sem Hrönn Grímsdóttir hjá Austurbrú,  sem er bæði lýðheilsufræðingur og jógakennari, fræddi starfsmenn um þessa þætti og hvernig vænlegast er að breyta heilsuvenjum til hins betra. Það er búið að halda fimm slík námskeið, en markmiðið er að bjóða öllum starfsmönnum að sitja slíkt námskeið á næstu vikum“, segir Hákon í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Fyrirtækið er einnig að gera fleira til að stuðla að heilsueflingu starfsmanna, því nýlega var farið að bjóða upp á svokallaða samgöngusamninga fyrir þá sem vilja auka hreyfingu með því að ganga eða hjóla til og frá vinnu á tímabilinu fyrsta maí og út október. Greiðsla fyrir hreyfinguna nemur 5000 kr. á mánuði og er skattfrjáls. Þessir samningar eru líka jákvæðir fyrir umhverfið, þar sem fólk ferðast með vöðvaafli í stað þess að nota farartæki sem brenna kolefni. „Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð og við höfum þegar gert talsvert marga samninga, þrátt fyrir rysjótt tíðarfar. Fólk þarf auðvitað að fara mislangt í vinnuna, en þeir sem þurfa að hjóla eða ganga lengst fá auðvitað mest út úr þessu. Við lítum á þetta sem mjög jákvæða viðbót við  líkamsræktarstyrkinn sem við bjóðum upp á, en hann nemur 20.000 krónum á ári“, segir Hákon stafsmannastjóri. Á næstu vikum verður framkvæmd könnun meðal starfsmanna til að kanna viðhorf starfsmanna til hreyfingar og hreyfistyrkja, en könnunin er liður í meistaraverkefni Guðrúnar Júlíu Jóhannsdóttur í íþróttafræði við Copenhagen University. Starfsmenn eru eindregið hvattir til að taka þátt í könnuninni, sem verður kynnt nánar fljótlega.

 

Hrönn Grímsdóttir lýðheilsufræðingur og jógakennari á námskeiði með starfsfólki Síldarvinnslunnar.

Að lokum má nefna að Síldarvinnslan er einnig að efla heilbrigðisþjónustu og ráðgjöf fyrir stafsmenn. Samið hefur verið við fyrirtækið Sjómannaheilsu um að taka við allri veikindaskráningu og ráðgjöf fyrir starfsmenn, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í að þjónusta sjávarútvegsfyrirtæki. Stofnandi fyrirtækisins, Guðni Arinbjarnar, er sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, en einnig viðurkenndur sjómannalæknir á Íslandi og í Noregi. Hann er því afar vel að sér í því hvernig á að fyrirbyggja og meðhöndla stoðkerfisvandamál, bæði hjá sjómönnum og starfsmönnum í landi. „Við töldum mikilvægt að bæta þjónustu á þessu sviði, enda ömurlegt þegar fólk verður óvinnufært vegna stoðkerfisvandamála sem hægt hefði verið að fyrirbyggja eða leysa með því að hjálpa fólki áður en vandamálin verða krónísk. Það er stundum sagt að sá sem er heilbrigður eigi sér margar óskir, en sá sem er veikur eigi sér bara eina ósk. Við viljum að okkar starfsmenn eigi sér margar óskir“, segir Hákon að lokum. Þjónusta Sjómannaheilsu verður kynnt nánar á næstu vikum, en Guðni mun þá koma í heimsókn og hitta starfsfólk.

 

Deila: