Leggja til bann við beinum veiðum á landsel
Hafrannsóknastofnun leggur til að sett verði bann við beinum veiðum á landsel. Stofnunin leggur einnig til að leitað verði leiða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar.
„Verði takmarkaðar beinar veiðar leyfðar er mikilvægt að veiðistjórnunarkerfi verði innleitt og skráningar á öllum veiðum verði lögbundnar. Jafnframt leggur stofnunin til að reynt verði að takmarka möguleg truflandi áhrif af athöfnum manna á landsel, sérstaklega í maí-ágúst þegar kæping og háraskipti eiga sér stað,“ segir í frétt frá Hafró.
Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Selasetur Íslands, hefur lokið vinnu við mat á stærð landselsstofnsins við Ísland, byggt á talningum sem fram fóru sumarið 2018. Skýrslu um verkefnið má nálgast á þessum tengli.
Landselsstofninn er metinn vera um 9400 dýr. Frá árinu 1980 hafa reglubundnar talningar farið fram til að meta stofnstærð og breytingar í stofnþróun tegundarinnar við Ísland. Stofninn er nú metinn vera 72% minni en árið 1980, en 23% stærri en árið 2016 þegar sambærilegt stofnstærðarmat var síðast unnið. Mesta fækkunin í stofninum átti sér stað frá árinu 1980 til ársins 1989 og benda niðurstöður undanfarinna ára til að stærð stofnsins sveiflist nú nálægt sögulegu lágmarki. Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum fyrir landsel við Ísland skal lágmarks stofnstærð vera 12.000 selir. Niðurstöður stofnmatsins gefa til kynna að fjöldinn sé nú um 21% minni. Mikilvægt er því að gripa til aðgerða til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett.
„Verulega hefur dregið úr hefðbundnum nytjum á landsel á undanförnum áratugum (vorkópaveiðar í net). Stærsti hluti selveiða er á ósasvæðum laxveiðiáa þar sem tilgangurinn er að draga úr meintum áhrifum sela á stofna laxfiska. Afföll vegna óbeinna veiða (meðafli við fiskveiðar) eru enn umtalsverð. Takmörkuð gögn eru til um óbeinar veiðar, en mat sem unnið er úr gögnum sem safnað er af veiðieftirlitsmönnum og úr stofnmælingu með þorskanetum bendir til að á meðaltali hafi 1389 ± 486 (± CV*) landselir veiðst árlega í grásleppunet á árunum 2014-2018.
Meðafli landsels í þorskanet og botnvörpu er mun minni og mun meiri óvissa er í kringum matið í þau veiðarfæri. Á árunum 2014-2018 er áætlað að 15 selir hafa veiðst í þorskanet árlega (CV= 1,02) og 17 landselir árlega í botnvörpu (CV=1,00).
Rannsóknir hafa sýnt að truflun manna nálægt mikilvægum selalátrum og kæpingarsvæðum getur haft neikvæð áhrif á vistfræðilega þætti landsels, leitt til að þeir breyta útbreiðslu sinni, ásamt því valda streitu meðal dýra. Slíkt getur með óbeinum hætti haft neikvæð áhrif á kópaframleiðslu, atferli og velferð dýranna (Granquist & Sigurjónsdóttir 2014). Samfara aukinni ferðamennsku er brýnt að efla rannsóknir á áhrifum mannaferða á selastofna og hvernig lágmarka má slík áhrif (Granquist & Nilsson 2016),“ segir í ráðgjöf Hafró.
Ráðgjöf stofnunarinnar má nálgast á þessum tengli.