Furðudýr, fjólufætlur, bakteríur og kóralar

Deila:

Ýmislegt áhugavert kom fram á neðansjávarmyndum þegar leiðangursfólk á Bjarna Sæmundssyni kannaði lífríki hafsbotnsins í lok júní og byrjun júlí.

Leiðangurinn er liður í gagnasöfnun fyrir langtímaverkefnið Kortlagning búsvæðaþar sem ólík búsvæði á hafsbotninum við landið eru skilgreind og fjölbreytileiki þeirra er skoðaður. Einnig er lagt mat á hvort um viðkvæm eða fágæt búsvæði sé að ræða og hvort grípa þurfi til aðgerða til verndar þeim.

Tilgangur rannsókna

Á hafsbotninum við Ísland er fjölbreytt dýralíf og mörg ólík búsvæði. Með kortlagningu búsvæða er unnið að því að afla upplýsinga um útbreiðslu þeirra og safna gögnum til að lýsa lífríki þeirra, meta umfang og mikilvægi hvers vistkerfis og þörf á verndun.

Flestar tegundir fiska í hafinu umhverfis landið eru vel þekktar og hafa fiskistofnar hér við land verið vaktaðir árum saman til að meta stofnstærð og veita ráðgjöf um veiðar. Breytingar á útbreiðslu fiskistofna til dæmis vegna hitabreytinga eru því augljósar. Reglulegar mælingar á hita, seltu, pH, næringarefnum og frumframleiðni hafa farið fram í tugi ára og því er hægt að sjá breytingar á sjávarhita og súrnun. Það vistkerfi sjávar sem hins vegar hefur ekki verið fylgst með er lífríkið á botninum. Sjávarbotninn er fullur af lífi og þessar lífverur eru stór og mikilvægur hluti af lífkeðju hafsins og afkomu til dæmis margra fiska. Hvernig þessar lífverur hafa brugðist við breytingum í gegnum tíðina er ekki vitað. Hvaða áhrif hafa aukinn hiti eða súrnun sjávar? Eru nýjar tegundir að bætast við eða hefur fjölbreytileiki minnkað? Mesta álag sem lífríki botnsins stendur þó fyrir hér við land og víðar eru veiðar. Hvernig hafa veiðar breytt þessu vistkerfi, hafa búsvæði horfið og hvað lífverur hafa skapað sér tækifæri við þessar aðstæður?

Með því að ljósmynda hafsbotninn eins og við höfum gert undanfarin ár við Kortlagningu búsvæða sjáum við að lífríkið á hafsbotninum er fjölbreytt og hvert svæði hefur sín einkenni og sérstöku íbúa. Með því að skoða á skipulagðan hátt lífríkið á botninum komumst við nær því að þekkja náttúrulegan fjölbreytileika á sjávarbotninum við landið, en einnig sjáum við líka áhrif mannsins á lífríkið og umhverfið. Við myndum bæði ósnortin svæði og innan við veiðislóðir. Valin eru svæði með ólíka botngerð og á mismundandi dýpi. Sérstök áhersla er á að leita uppi viðkvæm og fágæt búsvæði eins og kóralrif, kóralgarða og svampabreiður. Lífverur botnsins eru mjög tengdar umhverfinu eins og setgerð, hita og straumum og búsvæði eru skilgreind út frá þessum þáttum. Búsvæði eru misstór og misfjölbreytt. Það er mikilvægt að kortleggja þessi svæði til að hafa grunnupplýsingar um hvað er að finna í kringum okkur ekki síst vegna nýtingar hafsbotnsins við fiskveiðar og aðrar athafnir mannsins.

Rannsóknasvæði

Rannsóknasvæðin eru lituð og bláir punktar sýna stöðvarnar. Fyrst var farið í Jökuldjúp, svo Eldey og austur eftir kantinum frá Háfadjúpi að Hornafjarðardjúpi.

Við þessar rannsóknir er gögnum eingöngu safnað á fjölgeislamældum svæðum og við veljum staðsetningar rannsóknasniða út frá botnlagi og botnhörku og öðrum umhverfisþáttum. Innan hvers rannsóknasvæðis var gerð greining á landslagi og hörku botnsins. Þessar upplýsingar auk hitastigs, strauma og veiðiálags voru notaðar til að flokka hvert svæði í tíu sambærilega klasa. Þessir klasar höfðu því sambærilega botngerð, umhverfisþætti og álag. Myndað var innan hvers þeirra til að afla upplýsinga um lífríkið. Einnig reynum við að fara á svæði þar sem grunur liggur á að viðkvæm búsvæði eða tegundir sé að finna. Að þessu sinni var kíkt á botninn yst í Jökuldjúpi um 50-80 sjómílur vestsuðvestur af Garðsskaga, litið var á uppstreymissvæði austur af Eldey, á grjóthóla við Kötlugrunn og á landgrunnsbrúnina og kantinn allt frá Háfadjúpi að Hornafjaðradjúpi. Búsvæðin sem fundust einkenndust af mismunandi setgerð og lífverum eins og sæbjúgum, krossfiskum, svömpum, kórölum eða bakteríum. Alls voru mynduð 70 snið eftir botninum og var hvert snið um 600 m að langt. Myndað var á 100-700 m dýpi. Úrvinnsla myndefnis mun fara fram í landi og verða öll dýr greind og talin og botngerð og rusl og slitin veiðarfæri skráð.

Fyrstu niðurstöður

Í Jökuldjúpi vestur af Reykjanesi var að mestu leir- og sandbotn. Þar voru fjólufætlur (sæbjúgu, Laetomgone violacea) ríkjandi íbúar en þetta fallega sæbjúga hefur ratað á íslenskt frímerki. Svampar af ýmsum tegundum breiddu úr sér þar sem botninn var harðari.

Við Eldey var myndað við hitauppstreymissvæði þar sem heitt vatn sást koma upp úr botninum og bakteríuskán og útfellingar þöktu botninn. Uppstreymið hafði verið mælt með fjölgeislamæli Hafrannsóknastofnunar fyrr í vor og því var nákvæm staðsetning þekkt. Sandbotn var víða en þar var lífríkið ofan á botninum mjög rýrt. Á grjóthólum við Kötlugrunn voru svampar og kóralgarður með tegundinni “Swiftia” en þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum þessa kóraltegund í miklu magni. Swiftia er ein af mörgum kóraltrjátegundum við Ísland.

Kóralrif á 500 m dýpi í kantinum út af Síðugrunni og Öræfagrunni.

Á landgrunnsbrúninni eftir suðurströndinni var mest leirkenndur sandbotn með fremur lítinn fjölbreytileika tegunda ofan á botninum. Þar sem botninn var harðari eða ef grjót var á botninum jókst tegundafjöldinn. Það var ánægjulegt að sjá að á nokkrum stöðum í bröttum landgrunnskantinum voru lifandi kóralrif og á öðrum stöðum voru akrar af sæfjöðrum. Þessi svæði eru utan við veiðislóð enda í bröttum kantinum. Ofan á kantinum voru hins vegar dauð kóralrif enda er veiðiálag þar mikið og kóralrifin sem einu sinni voru þar hafa horfið. Í fyrri kortlagningaleiðöngrum hefur komið í ljós að fjölbreytileiki botndýralífs er mikill víða í landgrunnskantinum suður af landinu og þar eru þegar þekkt kóralsvæði. Það kom því ekki á óvart að sjá kóralrif í kantinum úti fyrir Öræfagrunni, Mýragrunni og Síðugrunni.

Akur af sæfjöðrum á 570 m dýpi.

Á Kötlugrunni sáum við dýr sem við höfum ekki séð áður og höfum enn ekki fundið út hvað í raun er. Liturinn er ljósfjólublár og dýrið er með tvær raðir af öngum og ferkantaðan fót. Það eru þekktar yfir 3000 tegundir af botndýrum í kringum Ísland en aðeins hluti þeirra hefur verið myndaður hingað til. Hvort þetta dýr tilheyri einhverri af þessum þekktu tegundum eða hvort um nýja tegund sé að ræða við Ísland vitum við ekki nú.

Í haust tekur svo við úrvinnsla á videó- og ljósmyndaefni frá þessum 70 sniðum sem voru mynduð. Í tengslum við þetta verkefni og önnur verkefni sem safna neðansjávarmyndefni hjá Hafrannsóknastofnun hefur verið hannað úrvinnsluforrit fyrir ljósmyndir og videóefni. Forritið tengist gagnagrunni stofnunarinnar og því er auðvelt að nálgast allar skráningar tegunda og botngerða frá þessum rannsóknum.

Leiðangursstjóri var Steinunn H. Ólafsdóttir og skipstjóri var Ásmundur Sveinsson.

Á efstu myndinni er furðudýr á Kötlugrunni. Dýrið er um 10 sm í þvermál.

 

Deila: