ESB hjólar í Ísland og Grænland, en skilur Rússa eftir

Deila:

Það sætir furðu að Rússar séu undanskildir í hugsanlegum refsiaðgerðum Evrópusambandsins vegna makrílveiða Íslendinga og Grænlendinga. Þetta segir formaður íslensku sendinefndarinnar. Þá sé einkennilegt að saka Íslendinga um ábyrgðarleysi í veiðum þar sem Evrópusambandið og ríkin tvö veiddu helmingi meira en vísindamenn höfðu ráðlagt. „Þetta sýnir kannski ekki mikið hugrekki hjá þeim að hjóla í Ísland og Grænland en skilja Rússland eftir,“ segir formaður sendinefndarinnar í samtali á ruv.is.

Chris Davies, formaður fiskveiðinefndar Evrópuþingsins, segir í samtali við breska fjölmiðla að til greina komi að beita Íslendinga og Grænlendinga refsiaðgerðum ef löndin minnka ekki makrílkvóta sinn. Davies segist hafa boðað nefndarmenn til fundar í byrjun næsta mánaðar til að ræða aðgerðir ef löndin draga ekki í land.

Kristján Freyr Helgason, formaður íslensku sendinefndarinnar, segir Evrópusambandið, Noreg og Færeyjar hafa haldið Íslandi frá samningum um kvóta í fimm ár og aðeins gert ráð fyrir litlum kvóta til þeirra sem standa utan samkomulagsins.

„Þetta eru mjög harkaleg viðbrögð að mínu viti. Þessir aðilar endurnýjuðu samninginn síðasta haust óbreyttan, tóku ekki nýja aðila inn í samninginn. Halda áfram að setja 15,6% til hliðar, sem skv. þeirra ákvörðun á að vera 102 þúsund tonn á þessu ári. Þetta er engan veginn nóg fyrir þá þrjá aðila sem út af standa, strandríkin Ísland og Grænland og veiðiríkið Rússland. Það kemur ennfremur á óvart að þeir skuli einungis tala um Ísland og Grænland í þessu sambandi því þann 18. júlí tilkynntu Rússar um 16.500 tonna hækkun á sínum kvóta. Þetta sýnir kannski ekki mikið hugrekki hjá þeim að hjóla í Ísland og Grænland en skilja Rússland eftir,“ segir Kristján.

Davies fer hörðum orðum um Íslendinga og Grænlendinga, segir það fyrirlitleg áform að auka veiðar og sakar Íslendinga um að koma fram af ábyrgðarleysi. Kristján furðar sig á þessum ummælum formanns fiskveiðinefndar Evrópuþingsins.

„Alveg frá 2014 þegar þeir gengu í samkomulagið þá hafa þeir alltaf ákveðið heildarafla langt umfram ráðleggingar vísindamanna. Bara á síðasta ári voru ráðleggingar vísindamanna 550 þúsund en þeir ákváðu 817 þúsund sem er 48% yfir ráðleggingum vísindamanna. Þannig að allt tal um að við séum óábyrgir Íslendingar og Grænlendingar, við vísum því til föðurhúsanna,“ segir Kristján.

Sjávarútvegsráðherra bauð Davies í síðustu viku að koma til Íslands og kynna sér veiðar og afstöðu Íslendingar. En getur Ísland gert eitthvað meira?

„Við eigum ennþá eftir að fá að vita hvort hann kemur. Við eigum eftir að fá að vita það alveg ákveðið. Síðasta haust endurnýjuðu þessir aðilar samninginn til tveggja ára. Við gerðum harða atlögu að því að komast inn í samkomulagi en því miður gekk það ekki eftir. Þannig að við erum ennþá utan samnings og erum því alfarið óbundin af þeirra ákvörðun,“ segir Kristján.

Þá séu tveir aðrir deilistofnar sem ekki ríki samkomulag um.

„Það er ekki samkomulag í norsk-íslenskri síld og ekki í kolmunna. Til að mynda í kolmunna nota allir einhliða ákvarðanir, líka Evrópusambandið og taka sér töluvert hærri hlut frá síðasta samningi. Í norsk-íslensku síldinni er sama uppi á teningnum. Þar hafa Norðmenn stóraukið sinn hlut og líka Færeyingar. Íslendingar hafa fylgt í kjölfarið enda getur enginn setið eftir þegar svona gengur á,“ segir Kristján.

 

Deila: