Óttalegur barningur

Deila:

,,Við höfum verið í sæmilegu ýsukroppi á Hornbanka og í Reykjafjarðarál en annars hefur þetta verið óttalegur barningur hér á Vestfjarðamiðum. Við byrjuðum túrinn á Fjöllunum fyrir suðvestan land og þar var góð gullkarfa- og ufsaveiði,“ segir Friðrik Ingason sem nú er skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK.

Höfrungur III lagði upp  í veiðiferðina 1. september sl. og var skipið að veiðum fyrstu tæpu vikuna á Fjöllunum.

,,Aflinn var fínn og við millilönduðum um 200 tonnum af fiski upp úr sjó þann 8. september. Við fórum svo á Vestfjarðamið, litum á Víkurálinn og þræddum síðan kantinn norðaustur á Halamið. Þar gaf ufsi sig til en bara í nokkra tíma snemma á morgnana. Þar, sem við höfum verið, var lítið af þorski og menn virðast eiga í erfiðleikum með að finna þorsk í augnablikinu, sama hvort þeir séu hér fyrir vestan, norðan land eða austan,“ segir Friðrik Ingason í samtali á heimasíðu Brims.

Um vika er nú eftir af veiðiferð Höfrungs III og býst Friðrik með að skipið verði áfram á Vestfjarðamiðum þar til að haldið verður til hafnar í Reykjavík.

Deila: