Mest aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Verðmæti landaðs afla var mest á höfuðborgarsvæðinu í júní síðastliðnum. Alls var landað þar fiski að verðmæti 2,6 milljarðar króna. Það er samdráttur um 6,4%. Næst koma Suðurnes með 1,2 milljarðar, en það er aukning um 22,3%. Verðmæti afla á landinu öllu hækkaði um 1,1%.

Töluverðar sveiflur eru á milli landshluta. Mest eykst aflaverðmætið á Vestfjörðum eða um 71,1% og varð það nú alls 906 milljónir króna. Mestur samdráttur varð Austurlandi, 35,2% og var verðmætið þar 410 milljónir króna.

Á Norðurlandi vestra varð aflaverðmætið 527 milljónir króna og hækkaði um 10,8%. Verðmæti landaðs afla á Norðurlandi eystra varð 674 milljónir og dróst það saman um 17,6%. Á Vesturlandi varð aflaverðmætið 505 milljónir króna, sem er samdráttur um 12,1%. Verðmæti landaðs afla á Suðurlandi varð 411 milljónir króna, sem er aukning um 19,1%. Loks dróst útflutningur á óunnum fiski saman um tæpt 1% og nam alls 577 milljónum króna miðað við sama mánuð árið áður.

Þorskurinn vegur þyngst í þessum tölum, en verð á honum hefur hækkað töluvert frá síðasta ári. Þá hefur það áhrif að enginn uppsjávarfiskur veiddist í júní nú og kemur það til dæmis fram í samdrætti aflaverðmætis á Austfjarðahöfnum.

Deila: