Síldveiðum lokið hjá skipum Brims

Deila:

Víkingur AK kom til hafnar á Vopnafirði um hádegisbilið í gær með um 1.275 tonn af síld. Verið er að landa úr Venusi NS en bæði skipin hafa lokið síldveiðum á þessu ári.

,,Það var góð veiði í túrnum. Við rákumst á síldarblett mun vestar en skipin hafa verið á undanfarna daga. Þetta var ekki stór blettur en hentaði ágætlega fyrir eitt eða tvö skip,“ sagði Hjalti Einarsson skipstjóri er rætt var við hann á heimasíðu Brims, en Hjalti segir að um 300 mílur séu til Vopnafjarðar frá þeim stað sem síldin fékkst. Það er töluvert nær landi en skipin hafa verið á síðustu daga og munar þar örugglega 100-150 mílum.

,,Þetta var góð norsk-íslensk síld. Meðalvigtin er sú sama og verið hefur seinni hluta vertíðarinnar eða 380-400 grömm,“ segir Hjalti en þess má geta að þetta var annar túr skipsins eftir smávægilega bilun og slipptöku á Akureyri. Í þeim fyrri var aflinn 1.240 tonn.

Hjalti segir að íslensku skipin séu flest búin með síldarkvóta sína og aðeins tvö önnur skip, Heimaey VE og Sigurður VE, hafi verið á miðunum þegar Víkingur hætti veiðum.

,,Eftir að löndun lýkur reikna ég með að farið verði til Reykjavíkur. Þar verður beðið eftir því að kolmunnaveiðar hefjist. Það gæti orðið upp úr miðjum nóvember,“ segir Hjalti Einarsson.

 

 

Deila: