Jafn fjöldi kvenna og karla í framkvæmdastjórn Hafró

Deila:

Framkvæmdastjórn Hafrannsóknastofnunar hefur tekið miklum breytingum það sem af er ári með ráðningum þriggja kvenna í störf sviðsstjóra. Frá og með 1. september síðastliðnum er í fyrsta sinn jafn fjöldi kvenna og karla í framkvæmdastjórn stofnunarinnar.

Hrönn Egilsdóttir hefur tekið við sem sviðsstjóri Umhverfissviðs en undir það heyra margvíslegar rannsóknir á umhverfi hafs og vatna. Hrönn lauk BSc í líffræði frá Háskóla Íslands 2007, MRes frá Háskólanum í Plymouth í Englandi 2008 og PhD gráðu í jarðvísindum frá jarðvísindadeild Háskóla Íslands árið 2017. Í framhaldsnámi stundaði hún rannsóknir á súrnun sjávar og líffræðilegum afleiðingum þeirra umhverfisbreytinga, sem nú eru einkar hraðar í hafinu við Ísland. Árið 2017 hóf hún störf á Botnsjávarsviði stofnunarinnar og kom þá að ýmsum rannsóknum, s.s. á búsvæðum í djúpsjó, hverasvæðum í sjó og rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar.

Harpa Þrastardóttir hefur verið ráðin inn sem nýr sviðsstjóri Sviðs gagna og miðlunar en á því sviði fara fram sýnatökur og aldursgreiningar, hugbúnaðarþróun og önnur tölvuþjónusta stofnunarinnar auk gæðamála og miðlunar. Harpa er með BSc og MSc í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Harpa starfaði áður sem gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri hjá Colas Ísland þar sem hún hefur innleitt ný umhverfis- og öryggisstjórnkerfi, unnið að því að efla öryggismenningu fyrirtækisins ásamt því að vinna að stefnumótun bæði fyrir Colas Ísland og á sínum sviðum fyrir Colas samsteypuna. Að auki hefur hún rekið Sundskóla Hörpu og kennt sund undir merkjum skólans.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir var nýlega ráðin inn sem nýr sviðsstjóri Botnsjávarsviðs en á því sviði fara fram rannsóknir, vaktanir, stofnmat og ráðgjöf. Guðbjörg Ásta lauk BSc prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og PhD gráðu frá háskólanum í St. Andrews í Skotlandi 2005. Frá þeim tíma hefur hún lengst af unnið hjá Háskóla Íslands, fyrst í stöðu rannsóknasérfræðings en lengst af sem forstöðumaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum þar sem hún hefur byggt upp sérhæfða rannsóknaaðstöðu til rannsókna á strandsjó. Frá því hún lauk námi hefur hún tekið virkan þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum með ýmsum rannsóknastofnunum og háskólum bæði innanlands sem og utan og hefur mjög góða þekkingu á íslensku rannsóknaumhverfi. Guðbjörg Ásta hefur fjármagnað og stýrt fjöldamörgum rannsóknaverkefnum á ferlinum og hafa rannsóknir hennar að miklu leyti tengst vistfræði fiska í strandsjó. Guðbjörg Ásta hefur sérstakan áhuga á þeim umhverfisþáttum og ferlum sem ráða afdrifum og dreifingu seiða á uppeldisstöðvum.

Með ráðningum þessara kvenna eru nú fjórar konur í framkvæmdastjórn stofnunarinnar en þar var fyrir Berglind Björk Hreinsdóttir mannauðsstjóri. Fjöldi kvenna í framkvæmdastjórn hefur aldrei verið meiri í sögu stofnunarinnar og teljum við að með fjölbreyttum hópi stjórnenda skapist sterkari framtíðarsýn og öflugra teymi til þess að leiða stofnunina áfram inn í framtíðina.
Á myndinni eru frá vinstri: Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, Hrönn Egilsdóttir og Harpa Þrastardóttir.
Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

 

Deila: