Arnarlax sækir um breytingar á fjórum eldissvæðum í Arnarfirði

Deila:

Arnarlax hefur sótt um breytingar á afmörkum fjögurra eldissvæða í Arnarfirði og hefur lagt fram ýtarlega skýrslu um áhrif þeirra breytinga á umhverfið. Telur Arnarlax að breytingin muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif og eigi því ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hefur erindið til afgreiðslu og hefur sent það til umsagnar nokkurra aðila áður en stofnunin kveður upp sinn úrskurð. Fallist stofnunin á skoðun Arnarlax ganga breytingarnar eftir en verði það niðurstaðan að framkvæma þurfi sérstakt mat á umhverfisáhrifum þarf að gera það áður en lengra er haldið.

Eldissvæðin sem áformað er að breyta eru við Hlaðsbót, Tjaldanes, Hringsdal og Kirkjuból í Arnarfirði. Metin eru áhrif breytinganna á umhverfisþættina ástand sjávar, botnset og botndýralíf, laxfiska m.t.t. laxalúsar og fisksjúkdóma, rækju í Arnarfirði, fugla, ásýnd, veiðar og siglingar.

Markmið breytinganna er að bæta eldisskilyrði, minnka umhverfisáhrif eldisins ásamt því að bæta velferð eldisfiska. Fyrirhugaðar breytingarnar eru byggðar á reynslu og þekkingu sem fyrirtækin hafa viðað að sér síðustu árin við sjóeldisstarfssemi á Vestfjörðum.

Í skýrslunni segir orðrétt: „Megin tilgangur þessarar breytinganna er geta snúið kvíasamstæðum þvert á straumstefnu og tryggja þannig jafnari strauma og betra súrefnisflæði um eldiskvíarnar og skapa rými til að færa eldiskvíar til innan eldissvæðanna ef bregðast þarf við vegna uppsöfnunar lífrænna efna undir kvíunum. Meira rými skapar einnig sveigjanleika á að fjölga kvíum í þeim tilgangi að minnka þéttleika eldisfisks í hverri kví. Gott súrefnisflæði og minni þéttleiki í kvíum bætir velferð fisksins.“

Rekstur sjókvíaeldis Arnarlax í Arnarfirði hófst á árinu 2014 og hefur félagið stundað eldi þar í átta ár. Samkvæmt núgildandi starfs- og rekstrarleyfum Arnarlax í Arnarfirði hefur fyrirtækið rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á áðurnefndum sex
eldissvæðum þar sem hámarkslífmassi á hverjum tíma má ekki fara yfir 10.000 tonn.

Í núverandi starfsemi eru notaðar kvíar sem eru 160 m að ummáli en fyrirhugað er að nota kvíar með 200 m ummáli, því slík útfærsla hefur komið vel út í sjókvíaeldi við Noreg að því er fram kemur í skýrslunni. Gert er ráð fyrir að í hverri kvíasamstæðu verði 12-16 eldiskvíar. Eftir sem áður verður umfang laxeldis Arnarlax í Arnarfirði það sama og gert var ráð fyrir í umhverfismati á sínum tíma. Stærri kvíar, með meira rúmmáli, leiða því til minni þéttleika eldislax í hverri kví og stjórnun á fjölda kvía í samstæðu gefur möguleika á að draga enn frekar úr þéttleika fisksins.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að nýtt skipulag á kvíasamstæðum þvert á sjávarstraum muni líklega leiða til þess að lífrænt efni frá eldiskvíum dreifist og þynnist betur en við núverandi skipulag og þannig minnka lífræna ákomu á hverja flatareiningu botns. . Það muni bæta velferð og þol eldisfisksins og dragi úr hættu á að smit (laxalús og sjúkdómar) komi upp í eldinu og berist síðan frá einni eldiskví til annarrar.
Frétt og mynd af bb.is

 

Deila: