Veisluboð hjá VSV í Finnlandi

Deila:

Vinnslustöðin og nýtt dótturfélag hennar, VSV Finland Oy, kynntu á dögunum starfsemi sína, vörur og þjónustu í þremur boðum sama daginn í móttökusal sendiráðs Íslands í Helsinki. Matreiðslumeistarinn Einar Björn Árnason – Einsi kaldi í Vestmannaeyjum athafnaði sig í sendiráðseldhúsinu og galdraði fram rétti úr sjávarfangi fyrir allan gestaskarann, mat sem var fagur á diski og unaðslega góður og eins og honum einum er lagið að búa til.

Frá þessu er sagt á vef Vinnslustöðvarinnar en gestirnir voru fólk í viðskiptalífinu, eigendur veitingahúsa og matreiðslumeistarar, samstarfsfólk VSV Finland OY í flutningageiranum og víðar að, fjölmiðlamenn og meira að segja stjórnmálamenn. Þar segir að athygli hafi vakið að Antti Kurvinen, landbúnaðar- og skógræktarráðherra í ríkisstjórn Sönnu Marin hafi heiðrað gestgjafa og aðra með nærveru sinni í ljósi þess að stutt er í þingkosningar í Finnlandi og kosningabarátta í fullum gangi.

Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki, er ekki í vafa um að þessi kynning hafi skilað því sem henni var ætlað að gera:
„Við fengum frábæran hóp, yfir hundrað manns. Allt lykilfólk í þeim geira finnsks atvinnu- og viðskiptalífs sem gestgjafarnir áttu mest erindi við. Þarna voru til dæmis fulltrúar mikilvægustu veitingahúsakeðja og stórverslana hér.
Þegar á heildina er litið var viðburðurinn afar vel heppnaður og óvenju vel sóttur. Það sem Vinnslustöðvarfólk hafði fram að færa er örugglega vel kynnt á þeim stöðum sem máli skiptir.“

Sigurgeir B. Kristgeirsson – Binni framkvæmdastjóri VSV lýsir viðburðinum og aðdragandanum:
„Við hjá Vinnslustöðinni höfum í nokkur ár haft augastað á Finnlandi og finnskum markaði fyrir fisk og hugðum okkur til hreyfings en COVID setti þar strik í reikninginn eins og í flestu öðru. Mál var sett í biðstöðu en síðla árs 2022 fóru hlutir að gerast.
Við stofnuðum VSV Finland Oy í Helsinki síðla árs 2022 og réðum til starfa Finna sem höfðu aflað sér þekkingu og reynslu í innflutningi á eldislaxi, markaðssetningu, sölu og dreifingu heima fyrir og í Eystrasaltsríkjunum. Meginverkefni nýja dótturfélagsins er annars vegar að flytja eldislax frá Noregi sölu og dreifingar í Finnlandi og víðar en hins vegar að flytja inn fisk og sjávarfang frá Íslandi og frá öðrum norrænum ríkjum til dreifingar í Finnlandi og á öðrum mörkuðum Evrópu eftir atvikum.
Dótturfélagið hefur heldur betur tekið flugið á fáeinum mánuðum og við fylgdum því eftir með því að sýna okkur og sjá aðra í Helsinki á dögunum, í afar velheppnum boðssamkomum í salarkynnum íslenska sendiráðsins. Þökk sé lipru og gjöfulu samstarfi við hjónin Harald Aspelund sendiherra og Ásthildi Jónsdóttur.
Erindi okkar var auðvitað að kynna Vinnslustöðina, dótturfélagið nýja, starfsemi beggja félaga, framleiðsluvörur og samstarf við finnsk fyrirtæki. Við áttum jafnframt sérstakt erindi við matreiðslumeistara og eigendur veitingahúsa til að sýna þeim og segja frá verkefni og vörum sem Vinnslustöðin og Einar Björn meistarakokkur hafa þróað í sameiningu. Þetta snýst um íslenskt sjávarfang sem matreitt er í anda Einsa kalda með tilheyrandi umgjörð og þjónustu. Við höfum lagt tíma og fjármuni i nýsköpunarverkefnið og vonandi skilar það tekjum þegar fram í sækir. Áhuginn í Helsinki var í það minnsta ótvíræður og lofar góðu.“

Meðfylgjandi eru myndir frá kynningunni.

 

Deila: