Vöxtur í sjónmáli hjá Benchmark Genetics

Deila:

„Ég er þakklátur og auðmjúkur fyrir það tækifæri að fá að stýra þessu fyrirtæki og koma inn í þann öfluga hóp starfsmanna sem er hér fyrir. Benchmark Genetics er fyrirtæki sem hefur einstaka stöðu í fiskeldi á heimsvísu og að mínu mati stöndum við frammi fyrir spennandi tækifærum til vaxtar á komandi árum,“ segir Benedikt Hálfdanarson sem tók á dögunum við sem framkvæmdastjóri Benchmark Genetics á Íslandi sem er leiðandi fyrirtæki í kynbótum, seiðaeldi og framleiðslu á laxahrognum og hrognkelsaseiðum. Benedikt hefur víðtæka reynslu í fiskeldisheiminum og var framkvæmdastjóri Vaka fiskeldiskerfa um árabil. Hann segir að vissu marki líkindi með þessum fyrirtækjum tveimur, bæði séu þau mjög þekkt í fiskeldi á heimsvísu og bæði hafi þau sterka markaðshlutdeild á sínum mörkuðum.

Benedikt með vænan eldislax.

Benedikt tók við framkvæmdastjórastöðunni af Jónasi Jónassyni sem stýrði einnig áður Stofnfiski, forvera Benchmark Genetics á Íslandi. Jónas færir sig nú yfir í önnur verkefni fyrir móðurfélagið Benchmark Global og mun hafa yfirumsjón með allri hrognaframleiðslu þess á Íslandi, í Noregi og Chile.

Sterk markaðshlutdeild á heimsvísu
„Benchmark Genetics er með um 40% markaðshlutdeild í hrognaframleiðslu í heiminum í dag og það er auðvitað mjög sterk staða,“ segir Benedikt. „Líkt og í tæknigeiranum er mikilvægast að vera alltaf í nánu sambandi við viðskiptavinina, þekkja þarfir þeirra og vinna að því að þróa vörurnar í takt við þeirra þarfir. Sterkt langtíma viðskiptasamband er bæði okkur og viðskiptavinum dýrmætt, því hrogn eru vara sem eldisfyrirtækin panta langt fram í tímann og ekki er hægt að grípa upp annars staðar ef eitthvað bregður út af. Milli okkar sem hrognaframleiðanda og viðskiptavinanna þarf því að ríkja mikið traust.“

Gríðarleg tækifæri framundan
Grunnur Benchmark Genetics hér á landi var fyrirtækið Stofnfiskur sem byggði upp þekkingu í hrognaog seiðaframleiðslu. Sú framleiðsla er í reynd sá grunnur sem hin vaxandi grein fiskeldisins á Íslandi byggir á í dag.

„Það gerist ekkert í laxeldi án hrogna, en það blandast engum hugur um að hér hefur frábært starfsfólk byggt upp einstakt fyrirtæki sem verður gaman fyrir mig að fá tækifæri til að þróa enn frekar inn í framtíðina,“ segir Benedikt.

„Tækifærin í laxeldinu eru gríðarlega mikil og þar með fyrir okkur. Spár gera ráð fyrir að á næstu 10 árum þurfi að auka framleiðslu hrogna árlega um 34-40 milljónir hrogna og þetta þýðir að við þurfum að halda vel á spilunum til að standa vörð um þá samkeppnisstöðu og forskot sem Benchmark Genetics hefur byggt upp. Þar hjálpar okkur að vera orðin hluti af stóru alþjóðlegu fyrirtæki, Benchmark Genetics Global, sem tengir saman sérþekkingu vísindamanna og erfðafræðinga okkar á Íslandi og erlendis, en gerir líka að verkum að við komum að verkefnum víða um heim, t.d. í Noregi, Chile og víðar,“ segir Benedikt og játar því að þörf sé fyrir fjárfestingar í stærri eldishúsum Benchmark Genetics á Íslandi innan fárra ára.

„Við þurfum að stækka eldisstofninn okkar til að mæta vaxandi markaði. Við opnuðum stórt og tæknivætt hrognahús í fyrra og getum því framleitt talsvert fleiri hrogn en við gerum í dag en við þurfum fleiri hrygnur til að ala upp í foreldrastærð, ef svo má segja. Benchmark Genetics á Íslandi kemur því til með að þurfa að ráðast í fjárfestingar í húsnæði og framleiðsluaðstöðu innan fárra ára,“ segir Benedikt.

Hjá Benchmark á Íslandi starfa um 85 manns en á heimsvísu eru starfsmenn um 800 innan Benchmark Global.

Dýrmætt að vera sjúkdómafrír hrognaframleiðandi
Það sem skapar Benchmark Genetics á Íslandi algjöra sérstöðu er að þetta er eina fyrirtækið sem er með allan sinn stofn í hrognaframleiðslu undir þaki og með stofn sem er algjörlega sjúkdómafrír.

„Þetta skapar okkur stórkostleg tækifæri og samkeppnisforskot, því í reynd er Benchmark Genetics á Íslandi með sérstöðu hvað það varðar að geta flutt laxahrogn til fiskeldis út um allan heim. Auk þessa höfum við skapað okkur forskot með tækni til að framleiða og afhenda hrogn allt árið, en það er lykill að árangursríku eldi, t.d. í nýjum landeldisstöðvum sem nú rísa víða um heim. Þetta er einungis hægt vegna okkar einstöku náttúrulegu aðstæðna á Íslandi þar sem gnægð er af köldu fersku vatni allt árið svo og hreinum borholusjó. Á þetta horfa eldisfyrirtækin bæði hér heima og erlendis og við getum sagt að það að vera sjúkdómafrír hrognaframleiðandi sé fjöregg sem við leggjum mikið á okkur að vernda. Víða erlendis eru hrygnurnar í opnum sjókvíum og eru þar af leiðandi útsettar fyrir sjúkdómum og vegna þess hafa aðrir hrognaframleiðendur orðið fyrir stórum áföllum. Hér höfum við aftur á móti allan okkar eldisstofn í kerjum innanhúss og byggjum traustar sjúkdómavarnir í kringum þær. Það að geta státað af sjúkdómafrírri hrognaframleiðslu er eftirsóknarvert og dýrmætt,“ segir Benedikt.

Viðtalið birtist í Sóknarfæri. 

Deila: