Harma áform um kvótasetningu grásleppu

Deila:

Landssamband smábátaeigenda harmar áform um kvótasetningu grásleppu. Umsagnarferli frumvarpsins í samráðsgátt er lokið. Í frumvarpinu er lagt til að í stað þess að hver grásleppuleyfishafi fái heimild til að stunda veiðar í ákveðinn fjölda daga, þá verði hverjum og einum rétthafa úthlutað aflamarki – kvóta.

„LS harmar framkomin frumvarpsdrög og hvetur matvælaráðherra að láta hér staðar numið, setja frumvarpið á ís og efna til viðræðna við LS um framtíð grásleppuveiða. Þar verði ekki eingöngu fjallað um stjórn veiðanna, heldur rannsóknir og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, markaðsmál, umgengni um auðlindina, meðafla við veiðar og fleira. Að viðræðunum komi jafnframt fulltrúar hinna dreifðu byggða þar sem grásleppan hefur og er enn mikið búsílag, kaupendur grásleppu og grásleppuhrogna og framleiðendur grásleppukavíars,“ segir meðal annars í umsögn sambandsins.

Grásleppunefnd LS skilaði einnig umsögn. Þar eru lagðar til breytingar á frumvarpinu, í sjö liðum, meðal annars að aflahlutdeild og flutningur aflamarks verði takmarkað við báta 15 brúttótonn og minni. Gæta þurfi þess að stærri skip hrifsi ekki til sín grásleppuheimildir.

Deila: