Von á 200 skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar

Deila:

„Þetta verður mjög annasamt sumar, líflegt og vonandi skemmtilegt,“ segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri hjá Höfnum Ísafjarðarbæjar sem á von á ríflega 200 skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar á komandi sumri. Komur skemmtiferðaskipa skipta sköpum fyrir rekstur hafnarinnar en tekjur af þeim eru um helmingur af öllum tekjum sem inn koma.

Umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir hafa staðið yfir við Sundabakka, aðalkantinn við Ísafjarðarhöfn, sem hefur verið lengdur um 300 metra og gerir fleiri skipum kleift að leggjast að bryggju. Hilmar tók við starfi hafnarstjóra um síðustu áramót en hann hafði starfað við höfnina frá árinu 2018 sem hafnarvörður, vélstjóri og skipstjóri og sem staðgengill hafnarstjóra.

„Ég er borinn og barnfæddur Ísfirðingur og var á sjó í 33 ár áður en ég hóf störf hjá Ísafjarðarhöfnum. Höfnin er lífæðin okkar og ég hef mikla trú á framtíðinni og sé fyrir mér að starfsemin vaxi og dafni næstu árin. Ég er mjög bjartsýnn fyrir hönd hafnarinnar en það er virkilega gaman að starfinu, starfið er fjölbreytt og mikið um að vera á hverjum degi,“ segir Hilmar. Hann er menntaður vélfræðingur og skipstjóri með rafvirkjamenntun, meirapróf og vinnuvélaréttindi.

Við hafnarstarfsemina á Ísafirði starfa 6 manns en auk hennar eru hafnirnar á Suðureyri, Þingeyri og Flateyri innan Hafna Ísafjarðarbæjar og á þessum stöðum er einnig starfsfólk. Umsvifin eru eðlilega mest í stærstu höfninni en útgerð handfæra- og línubáta er talsverð frá minni höfnunum. Þá er jafnan mikið um að vera meðan strandveiðitímabilið stendur á höfnunum þremur, einkum hefur verið vinsælt að gera út strandveiðibáta frá Suðureyri en Hilmar segir höfnina þar liggja vel við fengsælum fiskimiðum.

Nánar er rætt við Hilmar í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: