Funduðu með forsætisráðherra um strandveiðar

Deila:

Fulltrúar Landssambands smábátaeigenda og Strandveiðifélags Íslands áttu á mánudag fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem málefni strandveiða voru rædd. Arthur Bogason og Magnús Jónsson voru fulltrúar LS en Kjartan Sveinsson fulltrúi Strandveiðifélags Íslands.

Í tilkynningu frá LS kemur fram að eftirfarandi atriði hafi meðal annarra verið rædd:

  • Strandveiðikerfið er eini gluggi almennings að fiskveiðum hér við land. Það var sett á árið 2009 vegna þess að framkvæmd aflamarkskerfisns var talið fara gegn mannréttindum.
  • Handfæraveiðar eru jafngamlar byggð á Íslandi og eru umhverfisvænustu veiðar sem stundaðar eru hérlendis. Hvorki hér né annars staðar í heiminum hafa slíkar veiðar ógnað fiskistofnum.
  • Strandveiðar hafa sannað sig sem viðspyrna gegn þeirri hnignun sem margar sjávarbyggðir haf mátt þola.
  • Nú er hins vegar blikur á lofti þar sem margar útgerðir á B- og C-svæðum hafa annaðhvort þegar flutt sig yfir á A-svæði eða eru að undirbúa það. Frumvarp Matvælaráðherra leysir ekki þann vanda. Ágreiningur sá sem ríkt hefur milli svæða mun einungis flytjast inn á hvert svæði fyrir sig. Eina lausnin er að tryggja öllum sama dagafjölda, eins og stendur í núgildandi lögum.
  • Strandveiðikerfið er sóknarmarkskerfi og þarf að vera að öllu leyti aðskilið frá aflamarkskerfinu. Til þess að það geti orðið þarf að vera sveigjanleiki í ráðgjöf Hafró og að breytilegur afli strandveiðanna sé ekki inni í 20% aflareglu.

Í tilkynningunni er bent á að í greinargerð Jóhanns Sigurjónssonar fv. forstjóra Hafró frá því í okt. 2022 segi orðrétt: Við endurskoðun aflareglu fyrir þorsk hefur ítrekað fengist sama niðurstaða um að 20–22% veiðihlutfall sé skynsamlegt markmið og tryggi sjálfbærni veiðanna.“

20% talan sé því ekki fræðilega heilög. Strandveiðiafli hafi að jafnaði verið innan við 1% af útreiknuðum veiðistofni þorsks. Þeirri hugmynd var varpað fram á fundinum að gera 3-5 ára tilraun með að leyfa 4×12 veiðidaga á strandveiðum (skv. lögum) án þess að setja upp fyrirfram niðurneglt heildaraflamark. Í lok tilraunatímabilsins yrði staðan metin, bæði fiskifræðilega og hver þróunin hafi orðið í fjölda strandveiðibáta. Það er einkenni og aðalsmerki framsækinna vísinda og vísindamanna að gera tilraunir, prófa og þróa nýjar hugmyndir, endurskoða og skoða niðurstöður í ljósi reynslunnar.

Loks kemur fram að Katrín hafi sýnt málflutningi fulltrúa smábátasjómanna skilning en að hún hafi lagt áherslu á að hún vildi sjá hvað kæmi út úr vinnu stóru nefnarinnar sem starfar undir heitinu “Auðlindin okkar”.

Deila: