Góð veiði hjá systurskipunum

Deila:

Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í gær, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Bergur landaði í Vestmannaeyjum en Vestmannaey í Grindavík.

Haft er eftir Jóni Valgeirssyni skipstjóra á Bergi að veiðar hafi gengið vel undanfarna tvo túra. „Við lönduðum karfa sl. laugardag og vorum með fullfermi. Þá vorum við að veiðum við Eldey og á Fjöllunum. Það var haldið út á ný strax eftir löndun og farið á Víkina þar sem tekinn var þorskur. Síðan var farið í Sláturhúsið út af Hornafirði og tekin ýsa uns skipið var fullt. Segja má að þessir túrar hafi verið lúxustúrar. Það var góður afli og alger blíða. Í sannleika sagt er þetta bara tóm sæla og aldrei neitt bras. Ég geri ráð fyrir að haldið verði til veiða á ný í kvöld,“ segir Jón.

Vestmannaey var í sinni fyrstu veiðiferð eftir mánaðarlangt stopp, að því er fram kemur í fréttinni. Haldið var að sögn til karfaveiða. „Það hefur verið spegilsléttur sjór allan þennan túr og það eru forréttindi að fá að vera á sjó í svona veðri. Það gekk líka vel að veiða. Við fórum í Skerjadýpið og fylltum skipið þar. Þetta er mest djúpkarfi og svolítið af gullkarfa og ufsa með,“ segir Egill Guðni Guðnason skipstjóri.

Deila: