Ísland aftur með í NASCO

Deila:

Samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, sem tekin var í mars árið 2023, er Ísland aftur orðið meðlimur Laxaverndunarstofnunarinnar, NASCO. Önnur aðildarríki eru Bandaríkin, Bretland, Danmörk (fyrir Færeyjar og Grænland), Evrópusambandið, Kanada, Noregur og Rússland. Að auki eiga yfir 20 hagsmunasamtök áheyrnaraðild að NASCO. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Þar er farið yfir að NASCO var stofnsett í Reykjavík árið 1984 í þeim tilgangi að stuðla að verndun, uppbyggingu og skynsamlegri nýtingu laxastofna í Norður Atlantshafi. Íslendingar drógu aðild sína að stofnuninni til baka í lok árs 2009 í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins.

Í dag stendur NASCO frammi fyrir verkefnum og áskorunum sem skipta Ísland miklu máli, s.s. rannsóknum á fæðuslóð villtra laxastofna í hafi, vaxandi ógn af fjölgun hnúðlax og áhrifum fiskeldis á villta laxastofna. Alþjóðleg samvinna og sameiginleg þekking á þessum viðfangsefnum er lykillinn að árangri og þátttaka Íslands því mikilvæg, bæði fyrir Ísland og NASCO.

„Það eru vissulega ánægjuleg tímamót að Ísland skuli nú aftur eiga sinn sess innan NASCO,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, starfandi matvælaráðherra. „Það er okkur mikilvægt að setja okkar mark á umræðuna og þær ákvarðanir sem eru teknar varðandi villta laxastofna í alþjóðlegu samstarfi.“

Deila: