Ný upplýsingaveita um sjókvíaeldi

Deila:

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi opnuðu nú í byrjun árs nýja upplýsingaveitu um fiskeldi í sjó á vefslóðinni www.fiskeldi.sfs.is. Segir í frétt samtakanna að sjókvíaeldi sé vaxandi atvinngrein á Íslandi og að markmið SFS sé að tryggja bestu mögulegu skilyrði í átt að því að sjálfbært sjókvíaeldi verði burðarstoð í verðmætasköpun hér á landi, í sátt við umhverfi og samfélag.

Margar hliðar sjóeldis

Fjallað er á vefsvæðinu um margar hliðar sjókvíaeldis og þróun greinarinnar. Þar má nefna umhverfisáhrif, laxalús, notkun sýklalyfja, samfélagsleg áhrif fiskeldis, vernd villtra laxastofna,eignarhald íslenskra eldisfyrirtækja og margt fleira. Í umfjöllun um samfélagslegu  áhrifin kemur m.a. fram að aldrei hafi fleiri starfað við fiskeldi á Íslandi en nú. Þannig fjórfaldaðist starfsmannafjöldinn á árabilinu 2010-2022 og atvinnutekjur á verðlagi ársins 2022 sexfölduðust á þessu tímabili. Atvinnutekjur í fiskeldi námu tæplega 3,4 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins 2023 samanborið við 2,6 milljarða fyrstu fimm mánuðina 2022. Starfsfólki fjölgaði í greininni um 14% milli ára þegar horft er til sömu mánaða og voru þeir 720 í maí í fyrra.

Gjörbreyttir Vestfirðir

Vakin er athygli á að ætla megi að hverju stöðugildi í fiskeldi á Vestfjörðum fylgi að jafnaði 1,8 íbúar. Atvinnutekjur af fiskeldi á Vestfjörðum voru 2,1 milljarður árið 2022 en 120 milljónir árið 2010, reiknað á verðlagi ársins 2022. „Það þýðir að þær hafi ríflega sautjánfaldast að raunvirði á tímabilinu. Á sama tíma hafa atvinnutekjur af ferðaþjónustu farið úr 600 milljónum í tæpa 1.700 milljónir, sem jafngildir tæplega þreföldun. Atvinnutekjur í fiskeldi hafa ekki bara vaxið hlutfallslega mest af öllum atvinnugreinum á Vestfjörðum, heldur einnig í krónum talið,“ segir í umfjölluninni.

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: