Icelandic Group selur Gadus í Belgíu

Deila:

Stjórn Icelandic Group hefur ákveðið að hefja söluferli á dótturfélagi sínu Gadus í Belgíu. Gadus sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum og kældum sjávarafurðum, einkum laxi og þorski, en um þriðjungur af hráefni félagsins kemur frá Íslandi.

Meðal viðskiptavina félagsins eru nokkrar af helstu smásölukeðjum í Belgíu en Gadus er annað stærsta  fyrirtækið í sölu á ferskum fiskafurðum í landinu. Gadus nýtur langvarandi traustra viðskiptasambanda við bæði viðskiptavini sína og birgja og skrifaði undir einkasölusamning við stóran smásöluaðila í Belgíu á árinu 2015.

Gadus  selur um 7.000 tonn af afurðum árlega og námu tekjur árið 2016 um 11 milljörðum króna.  Starfsmenn félagsins eru um 130 talsins.

Íslandsbanka hefur verið falin umsjón með söluferlinu. Áhugasömum aðilum er bent á að hafa samband í gegnum netfangið gadus@islandsbanki.is.

Með þessari sölu heldur áfram ferli í sölu fyrirtækja innan Icelandic group. Nýlega var gengið frá sölu á Ný-fiski í Sandgerði til Nesfisks. Þar áður var starfsemi Iberica á Spáni seld til þriggja íslenskra fyrirtækja. Þá keypti Brim hf. Starfsemi Icelandic í Asíu árið 2015 og 2011 var starfin í Bandaríkjunum seld til kanadíska fyrirtækisins High Liner Foods.

Um Icelandic Group:

  • Icelandic Group er eignarhaldsfélag um fyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu og sölu á sjávarfangi.
  • Icelandic Group er einnig móðurfélag Icelandic Trademark Holding (ITH) sem er eigandi vörumerkjanna ´Icelandic´ og ´Icelandic Seafood´ og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna og þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi.
  • Í Bandaríkjunum er Icelandic í samstarfi við Highliner Foods sem er leyfishafi og selur vörur undir vörumerkinu ´Icelandic Seafood´ inn á hótel og veitingahúsamarkað.
  • Á Spáni er Icelandic í samstarfi við Ibérica sem er leyfishafi og selur vörur undir vörumerkinu ´Icelandic Seafood´ inn á hótel og veitingahúsamarkað á Spáni, Frakklandi, Portúgal, og Ítalíu.
  • Icelandic Group er í 100% eigu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ). FSÍ er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.

 

Deila: