Skötuselur með krydduðu bulgur

Deila:

Skötuselur er sérlega ófrýnilegur fiskur við fyrstu sýn, ekkert nema gífurlegt ginið og ansi afturmjór. Hann lagast svo sem ekkert við næstu sýn, hann er jafn ljótur. En hann er einstaklega góður matfiskur. Þá er halinn oft talinn besti bitinn, en kinnarnar eru reyndar ekki síðri. Við fundum þessa gömlu góðu uppskrift í safninu okkar á blaði sem heitir Af bestu lyst. Hún ber það kannski með sér að hún sé komin yfir miðjan aldur eins og sumir en góð og holl er hún. „Rétturinn inniheldur fáar hitaeiningar, er hjartavænn og fullur af trefjum,“ segir á blaðinu. Verði oss að góðu.

Innihald:

500 g skötuselur
2 msk ólífuolía
1 tsk þurrkað rósmarín eða 1 msk ferskt
½ tsk natríumskert salt
1 tsk nýmalaður pipar

Bulgur:

150 g gróft bulgur
2 ½ dl sjóðandi vatn
1 grænmetisteningur
8 sólþurrkaðir tómatar í olíu
50 g ólífur
1 búnt ferskt dill

Aðferðin:

Penslið skötuselinn með ólífuolíu og kryddið hann með rósmaríni, salti og pipar. Snöggsteikið á teflon pönnu í 3-5 mín. hvoru megin, fer eftir þykkt.
Leysið grænmetisteninginn upp í sjóðandi vatni og hellið yfir bulgurhveitið skv. leiðbeiningum á pakka.
Skerið sólþurrkuðu tómatana niður í þunna strimla og ólífur í bita. Hrærið saman við bulgurhveitið. Kryddið með salti og pipar. Fínsaxið dillið og bætið út í.
Berið fram með snittubrauði og fersku salati.

Deila: