Beitir með fullfermi af kolmunna

Deila:

Beitir NK fyllti sig á kolmunnamiðunum í færeysku lögsögunni í vikubyrjun og er væntanlegur til Neskaupstaðar með um 3.000 tonna afla um miðjan dag í dag. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir í símtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að veiðin hafi gengið þokkalega að undanförnu en bræla hafi þó haft truflandi áhrif.

„Við vorum gjarnan að toga í 10-14 tíma og fá allt upp í 600 tonn í holi en eftir bræluna hefur þetta verið svolítið dreift. Annars fengum við 500 tonn í síðasta holinu í túrnum og það er bara býsna gott. Hérna rétt sunnan við línuna er mikið lóð og sá fiskur mun ganga inn í færeysku lögsöguna þannig að það er full ástæða til bjartsýni hvað varðar áframhaldandi veiðar. Það mega einungis 12 íslensk skip veiða samtímis í færeysku lögsögunni og meðal annars vegna brælunnar hafa nokkur skip beðið í höfn í Færeyjum eftir að komast að, en nú ætti biðin að taka enda þegar veðrið er gengið niður,“ sagði Tómas.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa hvor um sig tekið á móti 9.000 tonnum af kolmunna frá páskum og vinnsla hefur gengið vel. Á Seyðisfirði var lokið við að bræða sl. nótt og að sögn Gunnars Sverrissonar verksmiðjustjóra er nú unnið við að hreinsa verksmiðjuna. „Við munum ljúka við að hreinsa og verða tilbúnir að taka á móti meiri kolmunna hið fyrsta,“ sagði Gunnar. Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, sagði að þar myndi fyrirliggjandi hráefni klárast í dag en unnið væri við að skipa út mjöli. „Það er síðan von á Beiti á morgun og þá verður sett í gang á ný,“ sagði Hafþór.
Á myndinni er Beitir NK að dæla 500 tonnum af kolmunna í upphafi brælunnar. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.

Deila: