Mikið af frystum makríl til SVN

Deila:

Vilhelm Þorsteinsson EA kom í gærmorgun til Neskaupstaðar með 480 tonn af frystum makríl auk afskurðar og makríls sem flokkaðist frá við vinnsluna og landað var í fiskimjölsverksmiðjuna. Frysta makrílnum var landað í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Heimir Ásgeirsson, yfirverkstjóri í frystigeymslunum, segir í samtali við heimasíðu SVN, að með þessum farmi séu komin rúmlega 2.500 tonn af frystum makríl frá vinnsluskipum í frystigeymslurnar á vertíðinni. Vilhelm Þorsteinsson  sé nú að landa í fjórða sinn og að auki hafi Hákon EA landað einu sinni 625 tonnum.
Heimir segir að í vikunni hafi komið flutningaskip og lestað rúmlega tvö þúsund tonn af frystum afurðum. Hafi farið um borð í skipið blanda af makríl, síld og loðnu. „Síðan eru frystar afurðir alltaf að fara í gámum í skip á Reyðarfirði þannig að hér er mikið umleikis. Það verður mikil framför þegar ný Norðfjarðargöng verða tekin í notkun í septembermánuði því þá þurfa bílarnir ekki að fara með gámana yfir Oddsskarð, fjallveg sem fer í yfir 600 metra hæð. Bílstjórarnir bíða spenntir eftir göngunum enda mun tilkoma þeirra auðvelda flutningana, stytta ferðatíma og bæta meðferð ökutækjanna. Ný Norðfjarðargöng munu hafa byltingarkennd áhrif,“ sagði Heimir að lokum.

Bjarni Ólafsson á landleiðBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar með 460 tonn af makríl í fyrrakvöld og fór hann allur til vinnslu í fiskiðjuverinu. Gísli Runólfsson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í tveimur holum í Lónsdýpinu og um sé að ræða mjög góðan fisk. Gísli segir að þeir hafi þurft að koma í land fyrr en áætlað var vegna brælu.

Ljósmyndir Húnbogi Sólon.

 

Deila: