Minna magn en meiri verðmæti

Deila:

Útflutningur fiskafurða frá Færeyjum hefur dregist saman í magni, en verðmæti hans aukist miðað við 12 mánaða tímabil frá júní 2019 til maí 2018. Mestu munar um verulega aukningu útfluttra afurða úr þorski og umtalsverðan samdrátt í ufsanum.

Útflutningurinn nemur samtals 471.117 tonnum á 12 mánaða tímabil frá júní 2019, sem er samdráttur um 5%. Mest fór utan af afurðum úr makríl, 91.521 tonn, 84.553 tonn af síld fóru utan og 38.011 tonn af kolmunna. Um er að ræða verulegan samdrátt í kolmunna, eða um 39%. Útflutningur á síld er á sama róli og á fyrra tímabili en sala á makríl jókst um 16%.

Útflutningur á eldislaxi varð alls 62.840 tonn nú, sem er vöxtur um 6%. Sala þorskafurða var nú 26.874 tonn, sem er vöxtur um 4.984 tonn eða tæplega fjórðungs aukning. Sala á ufsa var 10.843 tonn, sem er samdráttur um 29% eða 4.337 tonn. Af ýsu fóru utan 6.507 tonn, sem er vöxtur um 1.790 tonn eða 38%.

Þessar breytingar á útflutningi á bolfiski endurspegla breytingar í afla, því veiðar á ufsa hafa dregist verulega saman en aukist á hinn bóginn í þorski og ýsu.

Verðmæti útfluttra fiskafurða á umræddu tímabili er 154 milljarðar íslenskra króna. Laxinn skilar þar mestu, 68 milljörðum og þorskurinn um 20 milljörðum. Heildarverðmæti útflutts lax hefur aukist um 6%, en í þorskinum er aukningin 31%.

Deila: