Bakaður lax með estragonsósu og fennelsalati

Deila:

Laxin er fiskur sumarsins í hugum okkar margra, sem eldri eru. En nú fæst gæðalax úr eldi allt árið um kring og á viðunandi verði. Því er um að gera að skella sér út í búð, til dæmis Nóatún, því uppskriftin er frá þeim og væntanlega allt til í hana þar. Uppskriftin er fyrir 4.

Innihald:

800 g roð- og beinhreinsaður lax
sjávarsalt
hvítur pipar úr kvörn
góð olífuolía
1 sítróna

Estragonsósa
1 laukur
1 hvítlauksrif
olía til steikingar
80 ml hvítvínsedik
½ lítri vatn
kjúklingakraftur eða grænmetiskraftur
½ lítri rjómi
sjávarsalt
hvítur pipar úr kvörn
1 msk. estragon fínt skorið (má nota þurrkað)

Fennel-appelsínu–radísu salat
8 radísur
2 fennel
2 appelsínur
1 poki klettasalat
2 msk. góð extra virgin ólífuolía
sjávarsalt
svartur pipar úr kvörn

Aðferð:

Skerið laxinn í ca 200 g steikur. Setjið laxinn í eldfast mót. Penslið með ólífuolíu undir og yfir laxinn, kryddið  laxinn með saltinu og piparnum. Setjið laxinn inn í 190 gráðu heitan ofninn í 12-15 min. Kreistið sítrónusafa yfir laxinn þegar hann er kominn út úr ofninum.

Estragonsósa
Skrælið og skerið laukinn smátt. Hellið olíu í pott og steikið laukinn þar til hann er orðinn mjúkur (á alls ekki að brúnast). Hellið edikinu yfir laukinn og látið það sjóða í 2 mín., bætið vatninu út á og sjóðið niður um ca helming. Bætið rjómanum í og látið sjóða niður um ca helming. Maukið sósuna með töfrasprota og smakkið hana til með kraftinum, saltinu og piparnum. Setjið estragonið út í sósuna rétt áður en þið berið hana fram.

Fennel-appelsínu–radísu salat
Skerið radísur og fennel í þunnar ræmur. Skrælið og skerið appelsínurnar í fallega bita. Setjið allt saman í skál með klettasalatinu og ólífuolíunni og kryddið með salti og pipar.

 

Deila: