Breytt olíuviðmið og frítt fæði

Deila:

Breytt olíuviðmið, frítt fæði og hlíðfarfatnaður er meðal þeirra atriði sem samið var um á síðustu stigum samningaviðræðna stéttarfélaga sjómanna og Samtala fyrirtækja í sjávarútvegi. Kauptrygging og kaupliðir  hækka til samræmis við hækkanir á almennum markaði.

Það sem breytist frá samningi þeim sem undirritaður var þann 24. nóvember 2016 er:

  1. a) Greidd er kaupskráruppbót kr. 300.000 með orlofi til þeirra sem eru í starfi og voru lögskráðir 180 daga eða meira á árinu 2016. Hafi skipverjar verið lögskráðir færri daga en 180 daga greiðist uppbótin hlutfallslega. (Eingreiðsla).
  2. b) Skiptaverð á á aflaverðmæti sem landað er til eigin fiskvinnslu útgerðar er 0,5%- stigum hærra en ef landað er hjá óskyldum aðila. Skiptaverð er sem sagt 70,5% ef landað er hjá eigin vinnslu útgerðar en 70% ef landað er hjá óskyldum aðila.
  3. c) Útgerð lætur skipverjum í té nauðsynlegan hlífðar- og öryggisfatnað. Fatnaðurinn er eign útgerðarinnar en í umsjá skipverjans. Ákvæðið tekur gildi 1. maí 2017.
  4. d) Skipverjar fá frítt fæði.
  5. e) Inn kemur grein um fjarskipti og fjarskiptakostnað skipverja.
  6. f) Samningstími er til 1. desember 2019

Kauptrygging háseta hækkar í þrepum úr 288.168 krónum í 326.780 krónur á samningstímanum. Hlutur skipstjóra fer úr 431.252 krónum í 490.170 fyrsta mái 2019.

Nýsmíðaálag fellur brott 2031

Samkvæmt þessari grein fellur svokallað „nýsmíðaálag“ brott þann 1. mars 2031. Sjómenn þurfa ekki að skila því til baka sem þeir fengu fyrir þetta ákvæði á sínum tíma þegar ákvæðið kom inn. Rétt er að geta þess að á móti þessu ákvæði fengu sjómenn m.a. aukinn orlofsrétt, 2% hækkun á mótframlagi útgerðar í lífeyrissjóð (samtrygginguna), þ.e. mótframlagið hækkaði úr 6% í 8%, og 2% mótframlag í séreignasjóð var reiknað af öllum launum, en var áður reiknað af kauptryggingu. Einnig er rétt að geta þess að til að ný skip geti nýtt þetta ákvæði þurfa þau að uppfylla ákveðin skilyrði sem tíunduð eru í gildandi kjarasamningi. Því hafa nokkur ný skip ekki getað nýtt þetta ákvæði þar sem þau uppfylltu ekki skilyrðin sem sett eru. En sem sagt þetta ákvæði fellur brott 1. mars árið 2031.

Línuuppbót

Skipverji á línubát með beitingavél á útilegu sem hefur verið 110 – 160 daga á sjó fær línuuppbót greidda. Hafi skipverjinn verið fleiri en 160 daga á sjó fær hann fulla línuuppbót, en annars hlutfallslega þar sem uppbótin lækkar um 2% fyrir hvern fækkaðan dag. Óskert línuuppbót er kr. 50.000 sem greiðist fyrir 15. janúar ár hvert miðað við úthald síðasta almanaksárs. Skipverji sem hefur tekjur yfir 50.000 kr á úthaldsdag á þó ekki rétt á línuuppbót.

Fiskverð

Samið er um það að fiskverð taki mið af markaðsverði og afurðaverði. Markmiðið er að verð á slægðum þorski verði 80% af meðalverði fiskmarkaðanna síðustu þrjá mánuði og mun verðið fylgja breytingu á markaðsverði og er þá stuðst við þriggja mánaða meðalverð á síðustu þremur mánuðum á fiskmörkuðunum frá þar síðust þremur mánuðum. Til viðbótar er síðan fylgst með afurðaverði og eru þar vegnar saman vísitölur afurðaverðs vegna landfrystingar, söltunar og ferskra afurða. Þetta er gert til að tryggja að ef verð á fiskmörkuðunum lækkar þó afurðaverð sé að hækka eða öfugt að þá sé hægt að grípa inn í og leiðrétta. Þetta á að tryggja að hráefnishlutfall í slægðum þorski sé sem næst 55% af afurðarverði.

Samningnum fylgja þrjár bókanir, bókun um athugun mönnun og hvíldartíma um borð í íslenska fiskiskipaflotanum, bókun um skiptimannakerfi og bókun heildarendurskoðun kjarasamnings. Samninginn má sjá á eftirfarandi slóð.

http://www.ssi.is/media/1041/kjarasamningur_2017.pdf

 

Deila: