Nýr Jón Kjartansson til Eskju
Eskja hf. hefur gengið frá samningi um kaup á nýju uppsjávarskipi frá Leirvík á Hjaltlandi. Skipið heitir Charisma, byggt 2003 í Noregi og er 70,7 metrar á lengd og 14,5 metrar á breidd. Aðalvél skipsins er MAK 6000 kw og 8160 hestöfl.
Skipið ber 2.200 rúmmetra í 9 tönkum með RSW kælingu og mun koma til með að leysa af hólmi aflaskipið Jón Kjartansson SU 111 sem kominn er til ára sinna en hefur þjónað félaginu vel í gegnum tíðina. Charisma mun heita Jón Kjartansson og reiknað með að Eskja fái skipið afhent í byrjun júlí.
Nýr Jón Kjartansson mun afla hráefnis í nýtt uppsjávarfrystihús sem tekið var í notkun í nóvember á síðasta ári og fyrirhugað er að það fari á makrílveiðar í byrjun ágúst næstkomandi.