Sjómaður frá 15 ára aldri

Deila:

Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK sem nú tekur við sem skipstjóri á Akurey AK, hefur verið til sjós frá 15 ára aldri. Segja má að Eiríkur sé Skagamaður í húð og hár þótt hann sé fæddur í Reykjavík því hann hefur búið á Akranesi frá eins árs aldri.

Eiríkur Jónsson
,,Ég réð mig fyrst í pláss árið 1972 en það var á Höfrungi II AK sem þá var undir stjórn öðlingsins Björns Ágústssonar. Hann var þekktur skipstjóri á Skaganum og mikill aflamaður. Mín frumraun var á ufsaskaki fyrir vestan og sunnan land. Rafmagnsrúllur voru ekki komnar til sögunnar á þeim tíma og því var stórufsinn dreginn á höndum. Það var svo töluvert síðar að norskar, rafknúnar handfæravindur komu til sögunnar og síðan DNG vindurnar frá Akureyri,“ segir Eiríkur en rætt var við hann á heimasíðu HB Granda í tilefni af sjómannadeginum sem var í gær.

Á síldveiðum í Norðursjónum

Eiríkur fékk pláss á nótaskipinu Óskari Magnússyni AK, sem Þórður Óskarsson gerði þá út, árið 1973.

,,Viðar Karlsson, sem síðar varð skipstjóri á Víkingi AK, var með skipið. Ég byrjaði um vorið og svo var farið á síldveiðar í Norðursjónum og þar vorum við fram undir jól. Það var ekkert veitt af íslenskri sumargotssíld á þessum árum og úthaldið hjá okkur var fyrst mánuður á netum, svo nótaveiðar á loðnu og loks Norðursjávarsíldin. Ég var á þessu skipi fram til haustsins 1975 en þá fór ég í Stýrimannaskólann,“ segir Eiríkur en hann segir skólann hafa verið nokkuð fjölmennan um þær mundir.

,,Það voru þrír eða fjórir bekkir í skólanum. Sessunautur minn var Sturla Þórðarson, síðar skipstjóri á Berki NS, og meðal eftirminnilegra pilta í hópnum get ég nefnt Hafstein Stefánsson, sem síðar var skipstjóri á Ými HF, Víði og Maí HF, Áka Guðmundsson frá Bakkafirði og Guðmund Einarsson frá Bolungarvík sem þekktastur er fyrir útgerð smábáta.“

Tók farmanninn líka

Eiríkur lauk fiskimannsprófi frá Stýrimannaskólanum vorið 1977 en hann ákvað að taka farmannaprófið líka.

,,Jónas skólastjóri sagði að það gæti borgað sig að bæta farmanninum við og það var örugglega töluvert til í því hjá honum því þá voru sennilega ein 50 kaupskip gerð út undir íslenskum fána.“

Það var Haraldur Böðvarsson hf. sem gerði Höfrung II út til veiða og Eiríkur segist hafa unnið hjá fyrirtækinu í öllum fríum frá náminu.

,,Þegar ég kláraði skólann var ég fyrst 2. stýrimaður á Víkingi AK en Viðar var þar skipstjóri sem fyrr segir. Þaðan fór ég árið 1982 yfir á Skipaskaga AK, sem var lítill togari sem Heimaskagi hf. gerði út. Þar var ég 2. og síðar 1. stýrimaður. Ég varð svo 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri á togaranum Haraldi Böðvarssyni AK árið 1986 en á Sturlaugi hef ég verið frá árinu 1992,“ segir Eiríkur en hann tók við skipstjórn á Sturlaugi árið 2009.

,,Sturlaugur er mjög gott skip, smíðað á Akranesi árið 1981 fyrir Grundfirðing hf., en það hét upphaflega Sigurfari SH. Þetta er því skip sem komið er til ára sinna en það breytir þó engu um að það hefur staðið vel fyrir sínu.“

Meiri hátíðisdagur hér áður fyrr
Að sögn Eiríks hefur hann jafnan haldið upp á sjómannadaginn. Að þessu sinni verður hann þó fjarri góðu gamni á siglingu með Akurey í Miðjarðarhafi frá Tyrklandi og heim á Skagann.

,,Ég var formaður Sjómannadagsráðs Akraness í fjölmörg ár og mér finnst sjómannadagurinn hafi verið miklu meiri hátíðardagur hér áður fyrr. Nú hefur umgjörð dagsins víða breyst í nokkurs konar karnival. Áður en sjómannadagurinn var gerður að opinberum hátíðardegi og það bundið í lög að sjómenn ættu að vera í landi þennan dag þá var jafnan mesti spenningurinn fólginn í því að komast örugglega heim fyrir sjómannadaginn. Á Akranesi var alltaf fjölmenni við höfnina til þess að fylgjast með kappróðrinum og sömuleiðis var sjómannamessan vel sótt. Aldraðir sjómenn voru heiðraðir og það var hátíðarbragur yfir deginum. Í seinni tíð hefur verið erfitt að fá Faxaflóahafnir til að taka þátt í viðburðum á Akranesi á sjómannadaginn en verkalýðsfélagið má eiga það að það hefur unnið vel í að skipuleggja dagskrána,“ segir Eiríkur Jónsson.

SturlaugurH.BodvarssonAK10

 

 

Deila: