Fiskvinnsla á Breiðdalsvík í uppnámi

Deila:

Fiskvinnsla Ísfisks á Breiðdalsvík er í uppnámi og hætta á að tíu störf í vinnslu hverfi frá staðnum. Fyrirtækið hefur sagt upp samningi við Byggðastofnun og segist þurfa að fá meira út úr samningum til að vinnslan borgi sig. Framkvæmdastjóri Ísfisks segir í samtali á ruv.is að þrátt fyrir kvótann hafi fyrirtækið engan ávinning af vinnslunni.

Snemma árs 2015 hófst fiskvinnsla á vegum Ísfisks á Breiðdalsvík en fyrirtækið er einnig með vinnslu í Kópavogi. Vinnslan á Breiðdalsvík hefur starfað samkvæmt samningi við Byggðastofnun og útgerðarmenn á staðnum um sértækan 400 tonna byggðakvóta. Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks, segir að launahækkanir og gengi krónunnar hafi þurrkað út ávinning af vinnslunni og hefur öllum tíu starfsmönnum á Breiðdalsvík verið sagt upp. „Svona lítil eining hún verður alltaf dýr í rekstri, hún verður alltaf dýr á hvert framleitt kíló. Ég reikna með að Byggðastofnun verði að auglýsa þetta aftur þessi gæði, þá munu vonandi einhverjir sækja um. Mögulega við en ég hef bara ekki myndað mér neina skoðun á því,“ segir Albert.

Mögulegt að Djúpivogur og Breiðdalsvík byggi upp eina vinnslu

Breytingar eru fram undan í byggðakvótakerfinu og gætu haft áhrif á hvað gerist á Breiðdalsvík. Starfshópur leggur til gerðir verði samningar til lengri tíma, 10 ára, til að auka líkur á uppbyggingu og að vinnsla verði stöðug. Líka að útgerðarmenn megi senda fiskinn í annað pláss gegn því að þeir leggi fé í uppbyggingu heima fyrir. Slíkt yrði alltaf háð samþykki sveitarstjórnar en gæti þýtt að útgerð á Breiðdalsvík sendi fiskinn til vinnslu á Djúpavogi. Elís Pétur Elísson er útgerðarmaður á Breiðdalsvík. „Ég held að það sé fullreynt að hafa vinnslu í hverju einasta litlu þorpi á Íslandi. Ég held að Djúpavogsbúar og Breiðdælingar ættu að horfa til þess að vinna saman í þessu. Byggja upp eina sterka vinnslu á öðrum staðnum og setja það í stein hvernig þetta muni samnýtast báðum stöðunum,“ segir Elís Pétur.

 

Deila: