Fiskitvenna

Deila:

Nú er enginn hversdagsmatur í boði, heldur frábær fiskitvenna eftir uppskrift úr enn einum einblöðungnum úr uppskriftaskúffunni okkar. Fennika leikur stór hlutverk í þessari sparilegu uppskrift. Hún er notuð á svipaðan hátt og sellerí, en það er anísbragð sem helst einkennir hana. Túrmerik gefur þessum ljúffenga fiskrétti fallegan gulan lit, en það er ekki síður mikilvægt fyrir matarlystina ef maturinn lítur vel út á diski. Rétturinn er hitaeininga- og fitusnauður og fullur af trefjum.
Og svo er bara að kaupa inn í matinn og gjöra góða veislu.

Innihald:

1 fennika
1 gulrót
1 blaðlaukur
2 msk ólífuolía
2 hvítlauksrif
1 tsk túrmerik
2 dl hvítvín (mysa)
4 dl fisksoð
1 dl kaffirjómi1 dl léttmjólk
1 tsk natríumskert salt
1 tsk nýmalaður pipar
1 dós niðursoðnir tómatar
250 g ýsa
150 g lax
159 g rækjur
ferskar kryddjurtir
3 dl hrísgrjón

Aðferð:

Hreinsið fenniku, gulrót og blaðlauk og skerið í strimla
Hitið olíu í potti eða á djúpri pönnu og mýkið grænmetið ásamt mörðum hvítlauk. Bætið túrmeriki saman við.
Hellið víni/mysu og fisksoði út í og látið malla í fimm mínútur. Bætið rjómablandinu saman við. Hleypið upp suðu og kryddið með salti og pipar. Hellið vökvanum af tómötunum, grófsaxið þá og hrærið saman við.
Skerið fiskinn í bita, setjið í pottinn og sjóðið í 5-7 mínútur (fer eftir stærð bitanna). Bætið rækjunum saman við og hitið í eina mínútu.
Skreytið með ferskum kryddjurtum (t.d. dill, sítrónumelissa og basilíka). Berið fram í pottinum eða pönnunni sem eldað var í.
Berið fram með grófu brauði og soðnum hrísgrjónum.

Deila: