Steikt ýsa í ostakexraspi með kartöflu- og fetaostasalati

Deila:

Nú, þegar líður að jólum er gott að borða vel af hollum og góðum fiski áður en kjötát hátíðanna byrjar. Ýsan er alltaf góð og þetta tilbrigði við ýsu í raspi er einstaklega gott. Uppskriftin er fengin úr uppskriftabók frá Mjólkursamsölunni sem ber heitið Ostur – það besta úr osti og smjöri. Hún er ætluð fyrir fjóra.

Innihald:

600 g ýsuflök (roðlaus og beinlaus)
1-2 egg
1 msk hveiti
½ dl mjólk
1 tsk dijon-sinnep
1 tsk sítrónupipar
ólífuolía og smjör til steikingar

Raspur:

6 hlutar mulið Ritz-kex
3 hlutar brauðraspur
1 hluti rifinn parmesenostur

Skerið ýsuna í hæfilega bita bita, blandið eggjunum, mjólkinni, hveitinu, sinnepinu og sítrónupiparnum vel saman. Myljið kexið saman við raspinn og ostinn. Veltið ýsunni upp úr eggjablöndunni og síða í raspblönduna. Steikið í olíunni og smjörinu í um 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til bitarnir eru orðnir gullinbrúnir og fiskurinn fullsteiktur. Kryddið með salti og pipar.

Kartöflu- og fetaostasalat:

400 g kartöflur, soðnar, skrældar og skornar í tvennt
2 msk laukur, saxaður
1 msk rauð paprika, skorin í strimla
2 sveppir, skornir í þunnar sneiðar
1 msk ferskt dill, fínt saxað
4 msk fetaostur í kryddolíu
Salt
Pipar

Steikið laukinn, sveppina og paprikuna á pönnu í olíunni af fetaostinum. Setjið kartöflurnar út á pönnuna og látið hitna í gegn. Bætið þá ostinum og dillinu saman við og smakkið til með salti og pipar.
Berið fram með soðnu grænmeti, salati og góðri kaldri sósu.

Deila: