Alltaf verið að styrkja stoðirnar

Deila:

„Við hér í Skinney-Þinganesi viljum halda áfram að reka okkar fyrirtæki og skjóta þeim stoðum undir það, sem við teljum þurfa. Við erum með réttindi til veiða og ber skylda til að fara vel með þau. Við reynum af fremsta megni að rækta þá skyldu. Kvótakerfið býður upp á þann sveigjanleika sem þarf til að gera sem mest úr þeim fiski, sem kemur á land og það hefur íslenskur sjávarútvegur verið að gera betur en útvegur í öðrum löndum.“

Þetta segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða og vinnslu hjá Skinney-Þinganesi á höfn í Hornafirði. Sóknarfæri ræddu við hann um fyrirtækið og stöðu sjávarútvegsins á Íslandi um þessar mundir.

Ásgeir Gunnarsson framkvæmdastjóri veiða og vinnslu hjá Skinney-Þinganesi á Höfn í Hornafirði, telur umræðuna um sjávarútveginn oft á tíðum óvægna og óvandaða.

Ásgeir Gunnarsson framkvæmdastjóri veiða og vinnslu hjá Skinney-Þinganesi á Höfn í Hornafirði, telur umræðuna um sjávarútveginn oft á tíðum óvægna og óvandaða.

Fjölbreytt fyrirtæki

„Við erum fjölbreytt sjávarútvegsfyrirtæki og í því felst styrkur okkar að miklu leyti. Við erum í bolfiski, humri og uppsjávarfiski og erum með starfsstöðvar bæði á Hornafirði og í Þorlákshöfn. Við rekum fiskimjölsverksmiðju, fiskiðjuver fyrir frystingu á uppsjávarfiski, við vinnum ferskan fisk, frystum og fletjum og söltum auk humarvinnslunnar á Hornafirði. Við erum með  átta skip, tvö þeirra á uppsjávarveiðum og svo eru 5 humar- og bolfiskskip og einn 15 metra línubát í litla kerfinu,“ segir Ásgeir.

Skinney-Þinganes keypti nýlega allar aflaheimildir útgerðarfélagsins Storms og hefur nokkuð rúmar veiðiheimildir. „Það er alltaf verið að styrkja stoðirnar undir starfseminni og alveg frá sameiningu 1999, höfum  við lagt mikla áherslu á að bæta við heimildum ásamt því að byggja upp og endurnýja vinnsluna í landi og endurnýja skip. Við erum nú að láta byggja tvö skip úti í Noregi sem við fáum haustið 2019, en við erum ekki búnir að endurskipuleggja flotann okkar í ljósi þess, en það er bara í vinnslu. Þetta eru 29 metra togskip og munu því nýtast við bæði veiðar á bolfiski og humri.

Dreifa bolfiskveiðinni jafnar yfir árið

Árið byrjar yfirleitt á loðnuvertíð sem stendur fram eftir mars. Netavertíðin hefur líka verið stór hluti af þessu tímabili líka, en við erum að draga úr netaveiðum og leggja meiri áherslu á vinnslu á flökum og jafna bolfiskvinnsluna meira yfir árið. Hér áður fyrr vorum við að veiða um 70% af þorskinum okkar á vetrarvertíðinni en nú erum við farnir að draga úr því. Upp úr miðjum mars tekur humarvertíðin við og stendur hún alveg fram í október. Uppsjávarskipin eru svo á makríl yfir sumarið og á norsk-íslensku síldinni og síðan íslensku sumargotssíldinni. Þetta því orðið þannig að uppsjávarveiðarnar og humarinn eru vertíðabundnar en bolfiskveiðin dreifist jafnar yfir árið og er það töluverð breyting hjá okkur.“

Skinney-Þinganes keypti útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Auðbjörgu í Þorlákshöfn og hefur byggt þar upp vinnslu á ferskum bolfiski til útflutnings ferskum með flugi og skipum. Starfsemin þar hófst í janúar 2016. „Það hefur bara gengið vel. Með þessu aukum við fjölbreytni í vinnslunni og drögum úr vægi saltfisks. Ferskfiskvinnslan er mjög vel staðsett í Þorlákshöfn. Þaðan er stutt upp á Keflavíkurflugvöll og frá Þorlákshöfn siglir færeyska skipið Mykines vikulega með ferskan fisk og annan varning til meginlands Evrópu. Þorlákshöfn er því kjörin staðsetning fyrir ferskfiskvinnslu og útflutning.“

PEPE BRIXDregið hefur úr humarveiði

Hornafjörður hefur lengi verið kallaður höfuðstaður humarveiða og –vinnslu og segir Ásgeir að vel gangi að selja humarinn en dregið hafi úr veiðunum. „Síðasta vertíð var nokkuð strembin. Veiðin hefur dregist saman og nýliðun í humri hefur verið mjög slök undanfarin ár. Það er því mikið um mjög stóran humar í veiðinni miðað við það sem var fyrir 5 til 10 árum síðan. Það þarf líka að hafa meira fyrir veiðunum en verið hefur. Markaðurinn fyrir humar er á hinn bóginn mjög góður og sterkur hér innan lands hefur salan aukist verulega meðal annars vegna vaxandi ferðamannastraums. Salan hér heima hefur því farið úr 5% upp í 20% á síðustu árum. Það er líka mikil eftirspurn eftir stórum og góðum humri í Suður-Evrópu og Íslendingar hafa haldið þeim markaði uppi. Við komum með allan humar heilan að landi og reynum að nýta hann heilan eins og mögulegt er og til Suður-Evrópu fer eingöngu heill humar. Halana seljum við svo mest hér heima, til Benelux landanna og til Kanada.“

Minna saltað á Portúgal

Ásgeir segir að dregið hafi verið úr vinnslu á flöttum saltfiski og sömuleiðis hafi vægi framleiðu fyrir markaðinn í Portúgal verið minnkað. „Við erum því að auka verkun inn á Spán og Ítalíu, þar sem hærra verð fæst. Það er ekkert mál að selja saltfisk, en maður heldur einhvern veginn alltaf að neyslan minnki með kynslóðaskiptum. Svo virðist kannski ekki vera. Staðreyndin er sú að sum lönd sem eru að kaupa af okkur eru ekkert sérstaklega sterk efnahaglega. Kaupgeta í Portúgal og í Brasilíu er lítil um þessar mundir og það ræður mestu um verðið, en eftirspurnin er fyrir hendi. Þar kemur svo sterk staða íslensku krónunnar okkur líka illa, en það á við um allan vöruútflutning.  Þess vegna þurfum við að vanda okkur enn frekar þegar ákveðið er inn á hvaða markaði skuli helst selja.“

PEPE BRIXMikil samkeppni við Norðmenn

Samkeppni á öllum fiskmörkuðum er mikil, bæði við önnur matvæli en ekki síður við keppinauta eins og Norðmenn. Gengi norsku krónunnar hefur verið lágt undanfarin ár og það kemur þeim til góða við útflutninginn. Norskar sjávarbyggðir njóta enn fremur opinberra styrja og norska útgerðin greiðir ekki veiðigjöld eins og hér er. Allt þetta leiðir til þess að þeir hafa forskot á okkur hvað varðar verð og sækja jafnframt að okkur í gæðum.

„Norðmenn eru okkur allstaðar erfiðir inni á þeim mörkuðum sem þeir eru. Við erum alltaf að keppa við þá og þeir bjóða í sumum tilfellum lægra verð en við. Við finnum verulega fyrir þessari samkeppni á saltfiskmörkuðunum og sömuleiðis á ferskfiskmörkuðum á fyrri hluta ársins þegar þeir taka mestan hluta þorskafla síns. Þeir eru líka að þróa sig inn á þá markaði og dreifa veiðinni meira á árið og því verður samkeppnin við þá á ferskfiskmörkunum bara meiri. Við sjáum það líka að þeir eru að tæknivæða sig. Þeir eru orðnir ansi stórir kaupendur á tæknibúnaði fyrir fiskvinnslu í dag. Þeir virðast því vera að minnka vægi á heilfrystum fiski og auka flakavinnslu.

Þetta þarf þó ekki endilega að vera slæmt til lengri tíma litið. Ég held að markaðirnir jafni sig og almennt komi betri afurðir inn á þá. Með auknum gæðum ætti markaðurinn að vaxa og því gæti það jafnvel styrkt okkur þegar fram í sækir. Það er ekki gott að verið sé að dæla lélegur hráefni inn á markaðina eins og Norðmenn eru að gera núna. Það truflar markaðinn í heild sinni.“

Erfitt um þessar mundir

Ásgeir segir að rekstrarumhverfi í sjávarútvegi sé erfitt um þessar mundir, aðallega vegna gengis íslensku krónunnar. „Það þrengir að hjá okkur eins og öðrum útflutningi, sem líður fyrir hátt gengi krónunnar. Það reynir meira á að menn hagræði og tæknivæði sig til að mæta þessu. Þetta er svo sem ekkert í fyrsta sinn sem við glímum við hátt gengi og erum búnir undir sveiflur á því. Ef pólitíska landslagið er í lagi þá sigla menn í gegnum þetta tímabil og svo koma betri tímar eftir einhver ár.

Af og til koma upp umræður um byltingu á kvótakerfinu en ég tel að þessi ríkisstjórn muni ekki gera miklar kerfisbreytingar. Við verðum að sjá að það sé ákveðin festa og rekstraröryggi fram í tímann. Við verðum að hafa trú á því að við getum fjárfest inn í greinina og á svona tímum þegar kreppir að þurfum við ekki síst á því að halda.

PEPE BRIXGjöldin verða að vera sanngjörn

Veiðigjöldin eru íþyngjandi og alltaf kannski spurning hver sú upphæð eigi að vera, en miðað við rekstarstöðu greinarinnar núna tel ég þau of há. Við viljum ekki missa fjölbreytnina út út sjávarútveginum. Það þurfa allir að fá að lifa og veiðigjöld eiga ekki að þurfa að hrekja menn út úr greininni. Þau verða að vera sanngjörn og mega ekki draga úr nýjum fjárfestingum. Þetta er eitthvert samspil sem verður að vera á sanngjörnum nótum. Svo er það aðferðin, að verið sé að greiða gjöld af góðu rekstrarári tveimur árum síðar, þegar afkoman er allt önnur og verri. Það má segja að við eigum að geta séð þetta eitthvað fram í tímann, hvað við eigum að borga miðað við gildandi lög, en við getum þó ekki séð í dag hvert umhverfið verður eftir tvö ár. Hvert gengið verður eða fiskverð á erlendum mörkuðum. Þetta kemur mikið í bakið á okkur núna og það þarf að finna betri leið í þessum efnum.

Að auki erum við í bullandi samkeppni við önnur lönd, þar sem engin veiðigjöld eru innheimt og sjávarútvegurinn jafnvel ríkisstyrktur. Þá verður leikurinn á mörkuðunum ansi ójafn og taka verður tillit til þess. Það verður að taka heildarmyndina en ekki einhvern hluta hennar til að ákveða hvert veiðigjaldið eigi að vera og sækja það svo af hörku,“ segir Ásgeir.

Óvægin og óvönduð umræða

Hann bendir á að útvegurinn sé að skila mjög miklu til samfélagsins, bæði í heild og í sínu nærumhverfi. Það sem verið sé að skila í ríkiskassann hafi margfaldast á undanförnum árum. Þar sé ekki bara um veiðigjald að ræða, heldur ýmsa skatta og gjöld til hins opinbera og sveitarfélaga og einnig styrki af ýmsu tagi til félagastarfsemi í heimabyggð eins og til íþróttafélaga

Umræðan um íslenskan sjávarútveg hefur um nokkurn tíma verið á neikvæðum nótum, kröfur um aukna gjaldtöku, ásakanir um brottkast og misferli. Ásgeir segir að sér finnist umræðan oft á tíðum mjög óvægin og óvönduð. Það sé jafnvel verið að rifja þar upp einhverja gamlar tuggur og heimfæra upp á nútíðina. „Það er vissulega á ábyrgð okkar sem erum að vinna í greininni og erum stjórnendur að sjá um að hlutirnir séu í lagi. Við höfum verið að stefna í rétta átt til að mynda hvað brottkastið varðar. Sögur um brottkast virðast oft á tíðum vera frá því, þegar við vorum í dagakerfi að reyna að ná okkur í einhverjar aflaheimildir, sem snéru kannski að því að fiska sem mest á sem stystum tíma. Í dag stýrum við veiðum allt öðruvísi þannig að brottkast á að vera eins lítið og hægt er. Það á ekki að þurfa að henda fiski og á ekki að leyfast. Að mínu mati eru sögurnar sem hæst fara úr öllu samhengi við raunveruleikann í dag og þær sögur sem ekki eru sagðar eru miklu betri en hinar sem fluginu ná. Fjölmiðlum virðist ekkert leiðast að flytja þær neikvæðu en minna fer fyrir þeim jákvæðu,“ segir Ásgeir Gunnarsson.

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Athygli gefur út. Blaðið má lesa á eftirfarandi slóð: https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

 

 

 

 

 

Deila: