Hættir hjá ÚA eftir 56 ára samfellt starf
Garðar Helgason lét af störfum hjá Útgerðarfélagi Akureyringa (ÚA) núna um mánaðarmótin eftir að hafa starfað samfellt hjá félaginu í 56 ár.
Garðar hóf störf hjá ÚA þann 15. september 1962, þá fimmtán ára gamall. Hann hefur unnið alla tíð síðan hjá félaginu, lengst af sem verkstjóri í löndun og skipaafgreiðslu.
Garðar verður 71 árs nú í lok maí. Eiginkona hans er Védís Baldursdóttir, sem hefur unnið í mötuneytinu í ÚA frá árinu 1986 eða í 32 ár. Í tilefni dagsins bauð Védís upp á steiktan fisk í hádeginu sem er í uppáhaldi hjá Garðari.
Garðar var kvaddur með virktum í matsal ÚA. Á myndinni færir Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, honum blóm í tilefni dagsins. Milli þeirra félaga er Védís Baldursdóttir, eiginkona Garðars.