Miklu af kolmunna landað hjá Síldarvinnslunni

Deila:

Síðustu dagana hefur kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni verið góð. Bjarni Ólafsson AK var á landleið með 1.810 tonn sem hann fékk í fjórum holum og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar í morgunsárið. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði 2.100 tonnum á þriðjudag á Seyðisfirði.

Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri á Seyðisfirði segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að lögð hafi verið áhersla á að halda verksmiðjunum á Seyðisfirði og í Neskaupstað gangandi að undanförnu þegar kolmunnaveiðin var heldur treg. Til dæmis landaði Börkur NK síðasta farmi sínum bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði sl. mánudag og þriðjudag svo unnt væri að halda verksmiðjunum gangandi. Hann landaði 1.200 tonnum í Neskaupstað og 1.000 tonnum á Seyðisfirði. Upplýsir Gunnar að verksmiðjan á Seyðisfirði sé búin að taka á móti 41.000 tonnum af kolmunna frá því í marsmánuði.

Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri í Neskaupstað segir að Beitir NK hafi landað þar 2.400 tonnum í fyrradag og þá sé búið að taka á móti 48.000 tonnum af kolmunna á árinu þannig að verksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað hafa samtals tekið á móti 89.000 tonnum.
Ljósmynd Helgi Freyr Ólason.

 

Deila: