Aflaskipið Jón Kjartansson SU 111 fertugur

Deila:

Fyrir skömmu varð aflaskipid Jón Kjartansson SU 111 fjörtíu ára. Að því tilefni styrkti Eskja HF sögu- og menningarverkefnið Aflaskipid.is.

Skipið hét upprunalega Eldborg HF 13 og var smíðað í Danmörku og Svíþjóð. Það kom svo í heimahöfn í desember 1978 og hóf loðnuveiðar strax um veturinn. Skipið var síðan eitt fyrsta íslenska skipið til að hefja veiðar á kolmuna. Hugmyndin var að vinna kolmunan um borð í svokallað surimi. Það gekk ekki eftir.

Árið 1988 fór skipið í nauðungarsölu og eignaðist Hraðfrystihús Eskifjarðar skipið undir forystu Aðalsteins Jónssonar eða Alla „Ríka“ eins og hann var oft kallaður. Þá fékk skipið nafnið Hólmaborg SU 11. Það reyndist útgerðinni mikið happafley fiskaði vel, sérstaklega eftir að norsk-íslenska síldin kom aftur undir lok seinustu aldar. Skipið hefur gengið í gegnum miklar breytingar. Það hefur verið lengt um 14 metra og skipt um aðalvél, komið fyrir kælikerfi og allur togbúnaður endurbættur og eru flestir sammála um að breytingarnar hafi heppnast vel. Árið 2006 keypti Eskja HF nýtt skip, fjölveiðiskipið Aðalstein Jónsson og þá fékk Hólmaborgin nýtt nafn; Jón Kjartansson SU 111. Skipið er aflamesta lögskráða skip Íslendinga og hefur veitt 1.536.075 tonn en aðeins Birtingur NK ex Börkur NK (Stóri Börkur) hefur veitt meira eða 1.546.235 tonn í gervallri veiðisögu Íslendinga.

Á aflaskipid.is má finna ýmis konar efni um þetta mikla skip. Þar má finna gamlar blaðaúrklippur, sjónvarps og útvarpsfréttir ásamt viðtölum við fyrrum áhafnarmeðlimi.

Framleiðandi Aflaskipsins er Heiðar Högni Guðnason.

 

Deila: