Trackwell innleiðir nýtt fiskveiðieftirlitskerfi fyrir Ástralíu

Deila:

Trackwell vann nýverið útboð fyrir uppsetningu á fiskveiðieftirlitskerfi (e. Vessel Monitoring System) fyrir Ástralíu. Útboðið var á vegum Fiskveiðieftirlitsstofnun Ástralíu (e. Fisheries Management Authority, AFMA) til að vakta víðáttu mikla efnahagslögsögu landsins. Trackwell hefur nú innleitt  kerfið  og mun sinna þjónustu og uppfærslum í framhaldinu.

 

Atferli sjö þúsund skipa vaktað í rauntíma í þriðju stærstu efnahagslögsögu heims

Trackwell fiskveiðieftirlitskerfið er í grunninn það sama og það sem gjarnan er nefnt „Fjareftirlitskerfi“ á Íslandi.  Kerfið býður upp á víðtæka vöktun skipa, og ýmsa eftirlits valkosti og gerir Áströlum kleift að sinna eftirliti með sinni efnahagslögsögu(e. Extended Economy zone, EEZ), ásamt veiðum á afmörkuðum svæðum. Fiskveiðieftirlitsstofnun Ástralíu getur nú, í rauntíma,  fylgst með atferli þeirra 7.000 skipa sem sigla umhverfis heimsálfuna en efnahagslögsaga Ástralíu er sú þriðja stærsta í heimi og spannar 8.2 milljón ferkílómetra. Þá eru með taldar þær aflandseyjur sem heyra undir  yfirráða svæði Ástralíu.

„Þessi samningur markar tímamót hjá Trackwell. Í fyrsta lagi gefur hann okkur möguleikann á að vinna náið með Áströlskum yfirvöldum að vakta alla skipaumferð og atferli þeirra skipa sem sigla Kyrrahafið, stóran hluta Indlandshafs og suður Íshafs. Í öðru lagi staðfestir samningurinn stöðu Trackwell sem leiðandi þjónustu- og söluaðila Fiskveiðieftirlitskerfa á heimsvísu,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, Sviðsstjóri Sjávarútvegssviðs Trackwell.

Kerfið heldur utan um veiðar skipa og sér um samskipti þeirra við aðrar þjóðir og svæðisbundin fiskveiðisamtök (e. regional fisheries management organisation). Þá mun kerfið einnig styðja við innleiðingu á Flux (e. Fisheries Langueag for Unicersal Exhange) sem mun styðja við dreifingu á öllum gögnum kerfisins.

„Við völdum Trackwell í þetta verkefni vegna yfirgripsmikils kerfis, sem er mjög samkeppnishæft í verði. Starfsemi okkar krefst stöðugrar þróunar og Trackwell kerfið felur í sér sveigjanleika sem mætir okkar fjöpbreyttu þörfum,“ segir Jeremy Thuell,  VMS framkvæmdastjóri AFMA

Trackwell VMS í tuttugu og tvö ár

Trackwell kerfið hefur verið í þróun síðan árið 1996  í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Neyðarlínuna, Sjávarútvegsráðuneytið, auk fjölda erlendra viðskiptavina. Með þessu samstarfið hefur kerfið verið aðlagað að breytilegum aðstæðum mismunandi hafsvæða svo það uppfylli allar alþjóðlegar reglugerðir og staðla um gagnasamskipti milli ríkja og aðliggjandi eftirlitssvæða. Þessi vinna hefur leitt til þess að erlend ríki og stofnanir hafa í sífellt auknum mæli verið að leita til Trackwell eftir fiskveiðieftirlits lausnum.

Ástralía er velkominn viðbót við viðskiptavinhóp  Trackwell sem einnig inniheldur Landhelgisgæslu Íslands, Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (e. North East Atlantic Fisheries Commission, NEAFC), Fiskveiðiráði Kyrrahafseyjanna (e. Pacific Islands Forum Fisheries Agency, FFA) og Fiskveiðnefnd Vestur- og Mið Kyrrahafs (e. Western and Central Pacific Fisheries Commission, WCPFC).

Myndin er frá Mapland, Department of Environment, Water and Natural Resources, SA.

 

 

Deila: