Túnfiskur sem meðafli tilkynningaskyldur

Deila:

Þar sem túnfiskur hefur veiðst sem meðafli í uppsjávarveiðum þá er vakin athygli á að það þarf að tilkynna allan túnfiskafla til Fiskistofu án tafar.

Túnfiskmeðafli reiknast af túnfiskkvóta Íslands en allur túnfiskur er tilkynningaskyldur til ICCAT, Alþjóðaráðsins um varðveislu Atlantshafstúnfisks.

Á árinu 2018 er íslenskum skipum heimilt að veiða samtals 84 tonn af bláuggatúnfiski miðað við afla upp úr sjó. Af þeim heimildum verður 80 tonnum úthlutað til veiða með línu og 4,0 tonnum ráðstafað til að mæta áætluðum meðafla íslenskra skipa á bláuggatúnfiski. Ísland hefur verið aðili að Atlantshafs túnfiskveiðiráðinu (ICCAT) frá árinu 2002. Auglýst hefur verið eftir umsóknum um þennan kvóta.

Síðustu ár hefur línubáturinn Jóhanna Gísladóttir haft heimildir til veiða á túnfiski, en Vísir hf. í Grindavík gerir skipið út. Veiðarnar hafa gengið misvel en í fyrra fór skipið ekki til túnfiskveiða. Túnfiskurinn veiðist suður af landinu og er forsenda veiðanna að hlýsjávartunga úr suðri nái inn í íslensku landhelgina. Fiskurinn veiðist ekki í köldum sjó.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: