Mesti útflutningur sögunnar

Deila:

Útflutningur Norðmanna á sjávarafurðum náði sögulegu hámarki á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Vöxturinn hefur verið drifinn áfram af mikilli aukningu í laxi og vaxandi eftirspurn í löndum innan Evrópusambandsins og Bretlandi.

Alls fluttu Norðmenn utan 1,4 milljónir tonna af fiskmeti að verðmæti 638 milljarðar íslenskra króna á fyrri helmingi þessa árs. Það er vöxtur í magni um 10% og 4% í verðmæti sem jókst um 24 milljarða íslenskra króna frá sama tíma síðasta árs.

Paul Aandahl, markaðsfræðingur hjá the Norwegian Seafood Council, Útflutningsráði sjávarafurða, segir að þrátt fyrir að verðmætaaukningin sé mest í laxinum, sé þetta einnig besta hálfa árið í þorski, ýsu og ufsa líka. Mesta aukningin í laxinum er í löndum innan Evrópusambandsins. Mikill aukning hafi orðið á útflutningi á ferskum laxi til Frakklands, Bretlands og Ítalíu.

Útflutningurinn á laxi umrætt tímabil varð 485.000 tonn að verðmæti 432 milljarðar íslenskra króna. Vöxtur í magni var 8% og 4% í verðmæti. Stærsti markaðurinn fyrir norska laxinn þetta tímabil er Pólland, Frakkland og Danmörk. Sala á laxi í júní var 86.000 tonn og verðmætið jókst um 6% og fór í 74 milljarða íslenskra króna.

Mikill vöxtur í magni síðustu mánuði er undirstaða aukinna verðmæta.

 

 

Deila: