Borgar sig að flaka makrílinn?

Deila:

Matís er að ljúka vinnu við norrænt verkefni styrkt af Nordic Marine Innovation 2.0 þar sem kannað er hvort flökun á makríl sé raunhæfur kostur. Það á við í þeim löndum sem hann er veiddur, en nánast allur veiddur makríll er fluttur utan nánast óunninn, hvert sem er fá Íslandi Noregi eða Færeyjum. Um þennan möguleika er fjallað á heimasíðu Matís.

Atlantshafsmakríll (Scomber scombrus) er mikilvægur fiskur fyrir Norðurlandaþjóðirnar. Árið 2016 veiddu Norðmenn og Færeyingar 475 þúsund tonn af makríl, það eru 41% af heildarafla sem er veiddur í heiminum (FAO, 2018). Meirihluti makríls sem veiðist er frystur heill eða hausaður og slógdreginn. Minna en 1% af aflanum er flakaður ferskur. Það er þó meiri eftirspurn eftir flökum og hluti makrílsins er því frystur heill, fluttur á milli landa, þiðinn og  handflakaður. Það er vegna þess hve viðkvæmt hráefni makríllinn er og þetta því talin vera besta leiðin til að tryggja gæði flakanna.

Með því að finna leiðir til að tryggja gæði eftir vélflökun sparast kostnaður og orka við m.a. frystingu og flutning ásamt því að mögulegt verður að nýta hliðarhráefni flökunar í annarskonar vinnslu innanlands.

Í verkefninu voru áhrif árstíða, veiðiaðferða, formeðhöndlunar o.fl. þátta á gæði flaka eftir vélflökun rannsökuð. Sérstaklega var litið til útlits flaka og magn blóðbletta og los í þeim metið. Í framhaldinu voru framkvæmdar tilraunir til að meta áhrif flökunarinnar á geymsluþol. Áhersla var lögð á að reyna að tryggja a.m.k. 12 mánaða geymsluþol flaka í frosti. Einnig að skoða hvernig þau henta til áframhaldandi vinnslu, t.d. reykingar.

Samstarfsaðilar í verkefninu voru Pelagia (Noregur), Síldarvinnslan (Ísland), Gjögur (Ísland), Vardin Pelagic (Færeyjar), VMK Arenco (Svíþjóð), Matís (Ísland), Nofima (Noregur), Árósar háskólinn (Danmörk) og Tækniháskólinn Chalmers í Svíþjóð.

Áfram verður haldið rannsóknum á flökun makríls og gæðum flaka í samstarfi innlendra sjávarútvegsfyrirtækja, Matís og Háskóla Íslands en þær rannsóknir eru styrktar af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóði.

 

Deila: