Einn strandaði og tveir vélarvana við Vestfirði

Deila:

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir landsins höfðu í nógu að snúast í gær. Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir frá Siglufirði, Skagaströnd og Sauðárkróki voru kallaðar út á þriðja tímanum í dag vegna báts sem strandað hafði í fjöru við Reykjadisk í Skagafirði. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá bátnum klukkan 14:00. Einn var um borð. Björgunarskipin Húnabjörg frá Skagaströnd og Sigurvin frá Siglufirði héldu þegar í stað á vettvang ásamt liðsmönnum frá björgunarsveitinni á Sauðárkróki.

Þyrlan Líf var við æfingar er útkallið barst og var haldið beint á staðinn. Þar að auki var ákveðið að varðskipið Týr sem statt var austan Grímseyjar héldi í átt að strandstað. Á fimmta tímanum tókst að ná bátnum af strandstað með aðstoð fiskibáts sem staddur var í grenndinni. TF-LIF var þá komin á staðinn en áhöfn hennar var til taks á meðan björgunaraðgerðum stóð. Manninum um borð varð ekki meint af óhappinu.

Skömmu síðar barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um að björgunarbáturinn Gunnar Friðriksson frá Ísafirði yrði kallaður út og færi til móts við bát sem varð vélarvana norður af Kögri. Báturinn var færður til hafnar á Ísafirði. Þá varð annar bátur vélarvana laust eftir hádegi úti fyrir Vestfjörðum. Hann var tekinn í tog og dreginn til hafnar á Patreksfirði.

 

Deila: