Hættir á kolmunna

Deila:

Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur eru á landleið og hafa lokið veiðum í ár. Að undanförnu hafa þau verið að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni ásamt Bjarna Ólafssyni AK sem þegar er hættur veiðum. Gert er ráð fyrir að skipin komi til heimahafnar síðdegis í dag eða kvöld.

Aflinn um borð í Beiti er um 950 tonn og um 200 tonn um borð í Berki. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að lítið af fiski hafi verið á ferðinni í færeysku lögsögunni að undanförnu. „Við erum einungis búnir að taka tvö hol og aflinn er um 200 tonn. Þetta hefur verið hræðilega lélegt síðustu dagana, það hafa verið um 5-6 tonn á tímann. Nú er útlit fyrir brælu fram á sunnudag og síðan á að koma bræla á ný á mánudag þannig að það er skynsamlegast að koma sér heim í jólafrí. Við komum við í Færeyjum á heimleiðinni þannig að strákarnir eiga kost á að kaupa jólagjafir handa konunum þar,” segir Hjörvar á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Á myndinni er Beitir NK á kolmunnamiðunum í færeysku lögsögunni.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Deila: