Vaktavinna í makríl í boði hjá VSV
Vinnslustöðin getur bætt við sig vaktavinnufólki uppsjávarhúsinu á makrílvertíðinni, meðal annars við pökkun og í vélum. Fólk með réttindi á lyftara er afar velkomið líka samkvæmt færslu á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.
„Það gerist gjarnan eftir Þjóðhátíð, og þegar skólar hefja starfsemi sína, að við þurfum að þétta raðirnar og auglýsa eftir fólki í stað skólanema sem hverfa á braut síðsumars. Þannig er staðan líka núna,“ segir Lilja Arngrímsdóttir starfsmannastjóri VSV.
„Við eigum því erindi við fólk hér í heimabyggðinni en ég vek jafnframt athygli á því að nýr Herjólfur hefur í raun stækkað atvinnusvæðið og gert Sunnlendingum fært að sækja vinnu hér. Þeir geta til dæmis tekið kvöld- og næturvaktir í makrílnum, komið með Herjólfi úr Landeyjarhöfn kl. 18:15 og farið til baka frá Eyjum kl. 9:30 að morgni.
Vinnuaðstæður í nýju uppsjávarvinnslunni eru fínar og áhugavert að kynnast verðtíðarstarfseminni hjá okkur.“